Helgin: Melarétt frestað um sólarhring
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. sep 2025 14:59 • Uppfært 12. sep 2025 15:04
Einni fjölmennustu fjárrétt Austurlands, Melarétt í Fljótsdal, hefur verið seinkað um sólarhring þar sem illa hefur gengið að smala í vikunni vegna þoku. Héraðshátíðin Ormsteiti fer fram um helgina en ýmsir aðrir viðburðir verða á dagskránni víða í fjórðungnum.
Smalar í Fljótsdal fara yfir tvö svæði, annars vegar undir Fellum, hins vegar í Rana. Smalarnir undir Fellum hafa hreppt óheppilegt veður í vikunni.
„Fyrsti dagurinn var ágætur en eftir hann hafa aðstæður verið krefjandi, sérstaklega daginn þar sem smalað var frá Laugarfelli og niður í dal.
Þá skall á okkur þoka og rigning. Við vitum að eitthvað af fé týndist út í þokuna og það er nokkuð öruggt að ekki fannst allt á svæðinu. Við slíkar aðstæður þyngist féð í rekstri þannig að erfiðara verður að koma því niður.
Í svona aðstæðum skiptir mestu að allir komist til byggða. Það gekk upp þótt hluti hópsins væri óvanur,“ segir Þorvarður Ingimarsson, fjallskilastjóri.
Réttað hvernig sem gengur að smala á morgun
Í gær stóð síðan til að smala fjallið í Norðurdal en það gekk ekki vegna þoku. Sömu sögu er að segja af annarri tilraun sem átti að gera í dag. „Við höfum ekki getað smalað í tvo daga og þá er lítið annað í boði en að fresta réttinni. Við vonumst til að geta klárað út að Bessastaðaá á morgun.“
Betur hefur gengið hjá þeim sem fóru í Ranann. „Þeir fengu ekki á sig þoku fyrstu tvo dagana. Þeir fengu síðan þoku þegar rekið var yfir heiðina, einkum í lokin. Það hægði á þeim en kom ekki frekar að sök.“
Á sunnudag stendur til að hefja rekstur úr safnhólfi klukkan 11 og byrja að rétta á hádegi. Þorvarður segir að réttin verði á sunnudag, hvernig sem gangi að smala á morgun. „Það verður réttað með því fé sem búið er að smala.“
Ormsteiti og hvað fleira?
Ýmsir fleiri viðburðir eru í boði um helgina. Á Héraði verður bæjarhátíðin Ormsteiti haldin. Í kvöld er Felladagur þar sem nokkur heimili í Fellabæ bjóða gestum og gangandi í súpu. Á morgun verður bæjardagur á Egilsstöðum. Athöfn í tilefni af 50 ára afmæli Lagarfossvirkjunar er hluti af dagskránni.
Í morgun hófst viðburður tengdur barna- og unglingamenningarhátíðinni BRAS í kennslustofu FabLab í Verkmenntaskóla Austurlands. Þar kennir Ólöf Þ. Hannesdóttir krökkunum að útbúa myndverk sem með tölvutækni er svo þrykkt beint á bol sem krakkarnir fá svo til eignar.
Hjónin Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson halda tónleika í Herðubreið á Seyðisfirði klukkan 20:00 í kvöld. Þau hafa verið áberandi í tónlistarlífi þjóðarinnar í áratugi, hún sem söngvari og hann sem píanó- eða hljómborðsleikari.
Á Seyðisfirði verður einnig haldið svokallað gusumeistaranámskeið um helgina. Það byrjar í kvöld með upphitun í Sjóbaðsstofunni Saman. Gusumeistari er sá sem stýrir athöfnum í gufuböðum. Kennarinn er Vala Baldursdóttir.
Kvöldmessa verður í Eskifjarðarkirkju á sunnudag klukkan 20:00. Þessi dagur er nefndur dagur kærleiksþjónustunnar og verður kærleikurinn því í forgrunni. Benjamín Hrafn Böðvarsson þjónar fyrir altari.
Tveir leikir verða í Íslandsmótinu í knattspyrnu á Austurlandi. Höttur/Huginn tekur á móti Kormáki/Hvöt í lokaumferð annarrar deildar karla á morgun. FHL fær ríkjandi Íslandsmeistara Breiðabliks í heimsókn á sunnudag.