Fróðleikur, skemmtun og stuð í tilefni af 50 ára afmæli Lagarfossvirkjunar
Einn viðburður sérstaklega sker sig frá fjölmörgum öðrum sem í boði verða á Ormsteitishátíðinni á Héraði um helgina. Það er opnun Lagarfossvirkjunar fyrir gestum og gangandi um stund á sunnudaginn kemur en þá skal fagna 50 ára starfsafmæli hennar.
Áður en Kárahnjúkavirkjun kom til sögunnar var það Lagarfossvirkjun sem var stærst og mest á Austurlandi öllu og bygging hennar merkasti áfanginn í sögu raforkumála á Austurlandi á þeim tíma enda leysti raforkuframleiðsla þeirrar virkjunar af hólmi fjölda mengandi dísilvéla.
Virkjunin sú átti hálfrar aldar afmæli í síðasta mánuði og af því tilefni er rekstraraðilinn Orkusalan að bjóða gestum til afmælisveislu af tilefninu yfir Ormsteitishelgina. Þar gefst kostur á að skoða hluta virkjunarinnar, þiggja góðar veitingar og fá fræðslu um sögu og starfsemi hennar milli klukkan 11 og 14 á sunnudag.
Pálmi Sigurðsson, stöðvarstjóri Lagarfossvirkjunar, lofar gestum skemmtilegri stund á sunnudaginn og vonast til að sjá sem flesta enda áfanginn merkur.
„Við höfðum verið að skoða hvernig og hvenær mætti fagna þessum áfanga en svo datt mér í hug að gaman væri að gera það á sama tíma og Ormsteiti stendur yfir og það varð raunin. Nú er bara að vona að veðrið haldist gott yfir helgina svo allt gangi sem best.“
Í sumar sem leið hélt Orkusalan svipaða veislu þegar 80 ár voru liðin frá gangsetningu Skeiðfossvirkjunar í Skagafirði og segir Pálmi að gestafjöldinn þar hafi komið mönnum mjög á óvart en kannski sýnt vel hve þessar eldri virkjanir eiga ríkan sess meðal íbúanna í grennd.
„Við héldum svona afmælisdag í þeirri virkjun í sumar og menn gerðu svona fyrirfram ráð fyrir kannski 50 til 60 gestum. Raunin varð þó að yfir 300 manns létu sjá sig svo það virðist mun meiri áhugi á virkjununum en við gerðum okkur grein fyrir. Vonandi verða sömu viðbrögð við Lagarfossvirkjun um helgina.“