Skip to main content
Bækistöðvar geðræktarmiðstöðvarinnar verða í húsnæði StarfA að Miðvangi 1 á Egilsstöðum. Mynd: GG

Geðræktarmiðstöð opnuð á Egilsstöðum á morgun

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. okt 2025 11:39Uppfært 09. okt 2025 11:40

Opið hús verður í nýrri geðræktarmiðstöð á Egilsstöðum. Gert er ráð fyrir að dagskrá miðstöðvarinnar til framtíðar verði mótuð í nánu samstarfi við þá sem hana sækja. Málstofa verður einnig um geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi.

Bækistöð geðræktarmiðstöðvarinnar verður í húsnæði Starfsendurhæfingar Austurlands (StarfA) að Miðvangi 1 á Egilsstöðum. Þar verður opið tvo daga í viku, þriðjudag og fimmtudag frá 13-16. Miðstöðin verður einnig í samstarfi við Fjárhúsin í Fellabæ og þar verður opið mánudaga frá 13-16. 

Eftir viku stendur til að opna aðra geðræktarmiðstöð á Reyðarfirði, sem verður í húsnæði félagsþjónustu Fjarðabyggðar í Melgerði.

„Þetta verður opið úrræði fyrir einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda eða áskoranir. Áherslan er að vinna með þátttöku og líðan í daglegu lífi, byggt á hugmyndafræði valdeflingar og jafningastuðnings. 

Það kostar ekkert að mæta og engar kröfur eru um mætingu eða að taka þátt í því sem er í boði. Þetta byggir á samveru til að rjúfa einangrun og sjálfseflingu.“

Opið hús verður í geðræktarmiðstöðinni milli klukkan 15 og 16 á morgun. Starfsemin verður kynnt, notendafulltrúar verða á staðnum og sýnd drög að dagskrá sem mótuð hefur verið. Stefnan er síðan að fá þátttakendur í starfseminni til að móta hana enn frekar með stjórnendum.

Í hádeginu á morgun verður einnig málstofa um geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi, haldin í sal Austurbrúar á Vonarlandi á Egilsstöðum. Meðal annars verða kynningar frá félagsþjónustum sveitarfélaganna, samráðshópi um áfallahjálp á Austurlandi, geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Austurlands og geðsviði Sjúkrahússins á Akureyri.