Skip to main content
Hollenska seglskipið á Borgarfirði á föstudag. Mynd: Pétur Sörensson

Gamalt seglskip á siglingu við Austfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. okt 2025 11:54Uppfært 20. okt 2025 11:57

Hollenska seglskipið Rembrandt van Rijn vakti athygli Austfirðinga þegar það sigldi meðfram ströndinni á föstudag. Heimildum um sögu skipsins ber ekki saman.

Um er að ræða þriggja mastra seglskip sem gert er út fyrir ferðafólk sem vill skoða norðurslóðir. Skipið sigldi á föstudag frá Vopnafirði til Seyðisfjarðar. Þar stoppaði það yfir nóttina áður en það sigldi frá landinu en það kom til Klaksvíkur í Færeyjum í morgun.

Skipið er 50 metra langt og 6,6 metra breitt. Það rúmar allt að 33 farþega og er með 12 manns í áhöfn. Þótt skipið sérhæfi sig í siglingum við norðurskautið, svo sem Grænland og Jan Mayen auk Íslandsferða, er það skráð á heldur hlýrri slóðum, það er að segja Vanuatu, örlitlu eyríki í Eyjaálfu.

Smíðað 1924 eða 1947?

En það er ekki það eina sem er sérstakt við skipið. Heimildum á netinu ber ekki saman um sögu þess. Síður á vegum ferðaþjónustuaðila, sem selja ferðir með skipinu, segja það smíðað sem síldveiðiskip í Hollandi árið 1947.

Það hafi síðan verið endurbyggt sem þriggja mastra skip í Hollandi árið 1994 til siglinga með ferðafólk. Það sigldi fyrst um norðurslóðir en síðan um Galapagos um tíma áður en það fór aftur til norðurs. Skipið var þá skráð í Panama en fært til Vanuatu eftir að það var endurbyggt frá grunni árið 2011.

Aðrar heimildir rekja sögu skipsins lengra aftur, aftur til ársins 1924. Það á samkvæmt þeim að hafa verið smíðað sem hollenskt fiskveiðiskip. Fljótlega var það selt til Þýskalands og gekk milli eigenda þar uns danskir eigendur keyptu það árið 1962. Þar voru líka nokkrir eigendur að því og átti það um tíma heimahöfn í Egersund í Noregi.

Að sama tíma að ári

Skipið var síðan selt aftur til Hollands um miðjan níunda áratuginn. Eftir að það var endurbyggt sem skemmtiferðaskip virðist saga þess lítt umdeild.

Næst er von á skipinu til Íslands í lok ágúst á næsta ári. Það mun sigla við landið fram í október og er hluti þeirra ferða þegar uppbókaður.