Vilja nota svipaða aðferð á þakið á Grunnskóla Breiðdalsvíkur og á Fjarðabyggðarhöllina
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt tillögu um að fá fyrirtækið ProSeal, sem varði þak Fjarðabyggðarhallarinnar nýverið, til að ráðast í sambærilegar endurbætur á þaki Grunnskóla Breiðdalsvíkur.
Bæjarráðið samþykkti á fundi sínum í gær tillögu stjórnanda þjónustu- og framkvæmdamiðstöðvar um viðgerðirnar og fól starfsmönnum að hefja verkið sem fyrst.
Samkvæmt upphaflegri framkvæmdaáætlun stóð til á þessu ári að skipta um bætur á þakinu en lekavandamál hafa verið þekkt í því í nokkurn tíma. Hluti af framkvæmdunum er að fara í viðgerðir á timburvirki en skipta þarf um borðaklæðningu og eitthvað af burðarvið.
Til stendur að fá ProSeal síðan til að úða einangrun yfir þakið til að laga vatnsfarvegi á því, en nokkuð er um að vatnsniðurföll séu ekki á lægsta punkti. Síðan þarf að úða yfir með vatnsþéttilagi, eins og á Fjarðabyggðarhöllinni. Það verður einnig sett á veggi undir þakgluggum.
Ein kennsluvika fellur niður á Breiðdalsvík
Tillagan er kynnt í minnisblaði stjórnandans sem lagt var fyrir fundinn. Þar segir að viðgerðin sé vænlegri til árangurs en að skipta bara um bæturnar. Þótt þetta sé hugsað sem bráðabirgðalausn eigi hún að geta dugað í nokkur ár. Hún eigi að minnsta kosti að stoppa alla leka. Í framhaldinu þarf síðan að kanna betur ástand timburverksins. Samhliða þessu þarf að fjarlægja hljóðvistarplötur sem skemmst hafa vegna leka.
Áætlaður kostnaður við verkið er um fjórar milljónir króna. Samkvæmt fjárfestingaáætlun voru ætlaðar tíu milljónir í stækkun leikskólans á Breiðdalsvík en frá henni hefur verið horfið í bili.
Á meðan framkvæmdum stendur verður allt skólastarf flutt á Stöðvarfjörð en aðeins er talið að vinnan taki 3-5 daga. Það er óveruleg röskun þar sem grunnskólinn er sameiginlegur fyrir báða staðina og kennt á þeim til skiptis.