Skip to main content
Kort Orkusölunnar/EFLU af fyrirhuguðu rannsóknarsvæði en taka mun fimm ár að greina í þaula hvort ráð sé að sækja um framkvæmdaleyfi til virkjunarframkvæmda.

Veitt rannsóknarleyfi á vatnsaflskostum Gilsár í Fljótsdal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. okt 2025 12:09Uppfært 30. okt 2025 13:26

Snemma í þessum mánuði veitti Umhverfis- og orkustofnun Orkusölunni formlegt rannsóknarleyfi á vatnasviði Gilsár í Fljótsdal en þar skal skoða fýsileika þess að reisa vatnsaflsvirkjun.

Gilsáin rennur á mörkum Fljótsdals og Múlaþings en áin fellur í Lagarfljótið nokkuð innan við Hallormsstaðaskóg og er rannsóknarleyfið, sem gildir til fimm ára, einungis veitt á hluta vatnasviðs árinnar. 

Leyfið tekur til þess að Orkusalan meti valkosti og útfærslu mögulegrar virkjunar í framtíðinni og ekki síður hugsanlega hagkvæmni virkjunar. Jafnframt skal meta umhverfisáhrif hennar og framkvæmdanna sjálfra sem og samfélagsleg áhrif sem af geta orðið.

Í umsókn Orkusölunnar kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir neinni vegagerð á rannsóknartímanum því þar séu fyrir vegir og slóðar sem nota megi. Ekki standi heldur til að setja upp starfsstöð eða önnur mannvirki meðan á rannsókninni standi.

Innan rannsóknarsvæðis sé votlendisflákar og náttúrulegur birkiskógur sem verndar njóta samkvæmt náttúruverndarlögum en rannsóknirnar muni ekki hafa nein áhrif á gljúfur eða skóga eða verndargildi svæðisins. Allar rennslismælingar verði litlar og að fullu afturkræfar.

Ef virkjun á þessum stað reynist fýsileg gæti þarna risið Gilsárvirkjun númer tvö hjá fyrirtækinu en unnið hefur verið að því um hríð að undirbúa virkjun Gilsár í Eiðaþinghá.