Vanhæfi starfsmanns ráðuneytis ógildir ekki strandsvæðisskipulagið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. ágú 2025 15:12 • Uppfært 07. ágú 2025 18:08
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið telur ekki ástæðu til að ógilda standsvæðisskipulag Austfjarða þótt umboðsmaður Alþingis hafi úrskurðað starfsmann ráðuneytisins vanhæfan við meðferð málsins. Ráðuneytið telur þann ágalla hafa verið óverulegan miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi, svo sem leyfi sem veitt hafa verið á grundvelli skipulagsins. Til stendur að endurskoða lögin um skipulagið.
Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði í apríl í kæru VÁ – félags um vernd Seyðisfjarðar gegn fiskeldi sem taldi starfsmann ráðuneytisins hafa verið vanhæfan. Sá hafði áður starfað hjá Skipulagsstofnun og sem slíkur komið að gerð skipulagsins.
Hann var síðan ráðinn tímabundinn til ráðuneytisins og kom sem slíkur að því að gera minnisblað um hlutverk ráðuneytisins við að yfirfara skipulagið, áður en ráðherra staðfesti það. Umboðsmaður sagði starfsmanninn hafa verið vanhæfan og hafnaði röksemdum ráðuneytisins um að aðkoma hans hefði verið lítilvæga. Umboðsmaður sagði starfsmanninn hafa hag af því að fá fyrri ákvörðun sína staðfesta og hafa haft tækifæri til að hafa áhrif á í hvaða farveg ákvörðunin færi.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðherra og þar með ráðuneytisins að skoða hvort og hvaða áhrif álitið hefði á staðfestingu skipulagsins. Til þess voru veittir þrír mánuðir og fór umboðsmaður fram á að vera látinn vita um ákvörðunina sem liggur nú fyrir. Hún er að annmarkinn sé ekki það verulegur að skipulagið sé fellt úr gildi.
Ekki hefðbundið eftirlitsvald þegar unnið er í umboði ráðherra
Í svari ráðuneytisins er útskýrt hvernig það metur hversu verulegur ágallinn sé. Í fyrsta lagi er talið fram að svæðisráð starfi í umboði og á ábyrgð ráðherra. Þótt ráðherra staðfesti skipulagið sé fyrirkomulagið annað en þegar um sé að ræða stjórnsýslu á tveimur stigum þar sem stjórnvald fari með eftirlits- eða endurskoðunarvald yfir hinu.
Ferlið sé allt á einu stigi því skipulagsvaldið sé formlega í höndum ráðherra þótt hann svæðisráðið vinni það með aðstoð Skipulagsstofnunar. Þá sé hlutverk ráðherra fyrst og fremst að fara yfir hvort gallar séu á formi eða efni skipulagsins frekar en hvort tillagan sé í samræmi við lög, stefnu og skipulag haf- og strandsvæða.
Ógilding myndi skapa óvissu um leyfi sem gefin hafa verið út
Eins þurfi að huga að því hvort veigamikil sjónarmið mæli gegn því að ákvörðun sé ógilt. Þar horfir ráðuneytið til þess að skipulagið hafi átt að skapa ramma utan um haf- og strandsvæði og atvinnustarfsemi á þeim. Ráðuneytið segir að þegar hafi verið gefin út leyfi og sendar inn umsóknir sem byggi á skipulaginu.
Ráðuneytið telur að það skapi verulega óvissu fyrir núverandi leyfishafa og umsækjendur ef núverandi skipulag yrði fellt úr gildi án þess að nýtt væri tilbúið. Lagaleg óvissa yrði um leyfi sem gefin hafa verið út á grundvelli skipulagsins.
Fjallaði um ferli en ekki efnisatriði skipulagsins
Að lokum metur ráðuneytið hversu mikil aðkoma starfsmannsins hafi verið og hvort hún hafi í raun haft áhrif á efnislega niðurstöðu ráðherra. Ráðuneytið segir að minnisblaðið umrædda hafi snúist um ferli standsvæðisskipulagsins og hvað þurfi að hafa í huga við rýni ráðuneytisins á tillögum svæðisráðs. Þar hafi ekki komið fram sérstakt faglegt eða efnislegt mat á tillögunum. Þess vegna hafi aðkoma starfsmannsins ekki haft þýðingu við endanlega niðurstöðu ráðherra.
Að þessu virtu telur ráðuneytið ekki tilefni til að ógilda standsvæðisskipulagið.
Endurskoðun laga um skipulag haf- og strandsvæða framundan
Ráðuneytið bendir hins vegar á að verið sé að skipa nýtt svæðisráð fyrir Austfirði, en heimild er til að endurnýja fulltrúa ráðuneyta við ráðherraskipti. Meðal hlutverka ráðsins er að endurskoða skipulagið.
Eins hyggst ráðuneytið endurskoða lög um skipulag haf- og strandsvæða. Lögin voru samþykkt árið 2018 og í þeim er ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að lögin skulu endurskoðuð þegar reynsla er komin á þau, eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þeirra.