Starfsmaður innviðaráðuneytisins vanhæfur til að vinna með Strandsvæðaskipulag Austurlands
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. apr 2025 20:00 • Uppfært 11. apr 2025 20:00
Umboðsmaður Alþingis telur að starfsmaður innviðaráðuneytisins hafi verið vanhæfur til að sinna vinnu við strandsvæðaskipulag Austurlands þar sem hann hafði aðkomu að skipulaginu á fyrri stigum. Umboðsmaður telur rétt að núverandi ráðherra skipulagsmála fari yfir hvaða áhrif hæfið hafi á staðfestingu skipulagsins.
Málið hverfist um starfsmann sem starfaði hjá Skipulagsstofnun og kom þar að gerð strandsvæðaskipulagsins, sat alla 17 fundi svæðisráðs og vann að tillögugerð. Hann var síðan ráðinn til innviðaráðuneytisins vorið 2022, um það leyti sem svæðisráðið skilaði af sér tillögum.
Starfsmaðurinn var ráðinn tímabundið til ráðuneytisins og starfaði þar til loka árs 2023. Sem slíkur sat hann meðal annars, ásamt fleiri starfsmönnum ráðuneytisins, fund fulltrúa VÁ – félags gegn fiskeldi í Seyðisfirði, með innviðaráðherra í febrúar 2023. Hann tók einnig þátt í að útbúa minnisblað um hlutverk ráðuneytisins við yfirferð á tillögu svæðisráðs sem ráðherra staðfesti nokkrum dögum eftir fundinn.
VÁ sendi umboðsmanni ýmsar kvartanir um efni og gerð skipulagsins, þar með talið hæfi starfsmannsins. Umboðsmaður afmarkaði athugun sína við hvort aðkoma starfsmannsins hefði verið í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi og óskaði skýringa frá innviðaráðuneytinu.
Ráðuneytið viðurkenndi að standa hefði mátt betur að málum
Ráðuneytið svaraði umboðsmanni á þann hátt að aðkoma starfsmannsins hefði verið óveruleg, honum aðeins verið ætlað að draga saman staðreyndir málsins en ekki meta tillögu svæðisráðsins. Þá gat ráðuneytið þess að erfitt gæti verið að útiloka að sérfræðingar stofnana, sem væru í tímabundnum störfum fyrir ráðuneytið, kæmu ekki að málum sem stofnanirnar hefðu haft til meðferðar.
Ráðuneytið viðurkenndi hins vegar að betur hefði farið á að starfsmaðurinn hefði ekki tekið þátt í þessu máli. Það væri óæskilegt í ljósi hinnar óskráðu meginreglu um sérstakt hæfi, einkum þegar um væri að ræða mál sem beint lyti eftirliti og endurskoðun ráðuneytisins.
Ráðuneytið fer með eftirlitsvald
Í áliti umboðsmanns er rakið hvernig svæðisráðin vinni skipulagið með aðstoð Skipulagsstofnunar. Ráðherra hafi síðan eftirlits- og ákvörðunarvald, sem þýðir að honum er ætlað að meta hvort á tillögunum séu efnis- eða formgallar, til dæmis hvort þær samræmist öðrum lögum eða hvort rétt hafi verið staðið að samráði og tímamörkum. Hann hefur vald til að staðfesta, hafna eða fresta gildistökunni.
Umboðsmaður bendir á að samkvæmt stjórnsýslulögum megi starfsmaður ekki taka þátt í meðferð á kærustigi hafi hann komið að því á lægra stjórnsýslustigi. Þótt ákvörðunin um strandsvæðaskipulagið sé ekki stjórnvaldsákvörðun byggi lögin um skipulagið almennt á óskráðum grundvallarreglum, meðal annars um sérstakt hæfi.
Þar með sé í gildi að starfsmaður sem fer með umsjónar eða eftirlitsvald sé vanhæfur hafi hann tekið þátt í meðferð málsins há öðru stjórnvaldi. Líkur eru á að hann haldi sig við fyrri ákvörðun enda hafi hann hagsmuni af því að hún sé lögleg og rétt því menn geri upp upp hug sinn við ákvarðanir. Með þessu sé ekki sagt að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för, heldur þurfi að tryggja traust almennings á stjórnsýslunni. Til þess verður almenningur og aðrir sem hlut eiga að máli að finna að þeir hafi réttmæta stöðu í máli.
Umboðsmaður telur vanhæfið augljóst
Umboðsmaður segir að mikilvægt sé að forsendur strandsvæðaskipulagsins séu traustar, enda sé því ætlað að vera grundvöllur annarra leyfisveitinga. Vegna þess valds og ábyrgðar sem ráðherra hafi verði að horfa til hæfis starfsmanna sem ekki bara koma að því að taka ákvörðunina heldur undirbúa hana.
„Ég tel það ekki fara á milli mála að slík aðkoma starfsmanns að undirbúningi og meðferð ákvörðunar sé almennt til þess fallin að leiða til þess að hann bresti hæfi til að taka þátt í meðferð málsins hjá öðru stjórnvaldi sem ætlað er að hafa eftirlit með því að sú ákvörðun sé í samræmi við lög.
Þá tel ég ekki unnt að líta svo á að hagsmunir starfsmanns af því að fyrri ákvörðun hans sé bæði lögleg og rétt við þessar aðstæður séu það smávægilegir að ekki sé hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á hann við úrlausn málsins,“ segir orðrétt í álitinu.
Ekki lítilfjörlega aðkoma að geta haft áhrif á framgang málsins
Umboðsmaður fjallar einnig um þá málsvörn innviðaráðuneytisins að aðkoma starfsmannsins hafi verið lítilfjörleg en þeirri skilgreiningu er alfarið hafnað. Umboðsmaður segir hana aðeins eiga við skrifstofufólk, svo sem það sem sinni skjalafrágangi eða vélritun, ekki þá sem sinni þeim þáttum sem þar sem raunhæfur möguleiki sé að hafa áhrif á úrlausn málsins.
Þótt afstaða til lögmætis sé ekki tekin í umræddu minnisblaði sé ekki hægt að líta framhjá því að með að koma að gerð þess hafi starfsmaðurinn verið kominn í stöðu til að hafa áhrif á í hvaða farveg málið færi. Þá telur umboðsmaður rétt að fara strangar í sakirnar við mat hæfis þar sem meiri hagsmunir séu í húfi.
Ráðherra skoði stöðu skipulagsins
Þess vegna kemst ráðherra að því að ekki hafi verið staðið rétt að málum í innviðaráðuneytinu við staðfestingu strandsvæðaskipulagsins. Við ríkisstjórnarskiptin færðust skipulagsmál til félags- og húsnæðisráðuneytis en því embætti gegnir Inga Sæland. Umboðsmaður beinir til hennar að skoða hvort og hvaða áhrif álitið hafi á staðfestinguna. Þá þurfi ráðuneytið framvegis að gæta að þessum málum í framtíðinni.