Skip to main content

Vanhæfi leiðir ekki sjálfkrafa til ógildingar strandsvæðaskipulags

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. apr 2025 09:28Uppfært 23. apr 2025 09:30

Félags- og húsnæðismálaráðherra þarf að líta til ýmissa hagsmuna áður en ákvörðun er tekin um hvort strandsvæðaskipulag Austurlands verði ógilt á grundvelli vanhæfis starfsmanns sem kom að upphaflegri staðfestingu. Ógilding hefði að líkindum aðeins í för með sér töf á málinu nema ráðherra finni á því enn stærri afmarka.


Umboðsmaður Alþingis skilaði áliti fyrir tveimur vikum um að starfsmaður innviðaráðuneytisins hefði verið vanhæfur við staðfestingu ráðuneytisins á strandsvæðaskipulaginu, þar sem hann hefði unnið að því áður sem starfsmaður Skipulagsstofnunar. VÁ, félag sem berst gegn fiskeldi í Seyðisfirði, kærði málið.

Umboðsmaður hafnaði rökum ráðuneytisins um að aðkoma starfsmannsins, sem fólst þar í gerð minnisblaðs fyrir ráðherra, hefði verið minniháttar, þar sem hann hefði hag af að staðfesta fyrri niðurstöðu sína og hefði þarna getað haft áhrif á farveg málsins.

Rétt er að ítreka að Umboðsmaður skilar áliti sem þýðir að það er ekki bindandi. Hann beinir því hins vegar til ráðherra skipulagsmála, sem nú eru komin undir félags- og húsnæðismálaráðuneytið, að meta hvaða áhrif álitið hafi á staðfestingu strandsvæðaskipulagsins.

Ráðherra þarf að meta hvaða hagsmunir eru undir í málinu


Hafsteinn Dan Kristjánsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í stjórnsýslurétti, segir að ráðherra þurfi núna að taka afstöðu til þess hvort og hvaða þýðingu það hafi að vanhæfur starfsmaður hafi tekið þátt í staðfestingarferlinu.

Álitið þýði ekki að skipulagið verði sjálfkrafa ógilt heldur þurfi ráðherra að meta áhrif slíkrar ákvörðunar í víðara samhengi. „Ógilding er því ekki sjálfgefin en annmarkinn er þó til þess fallinn að leiða til þess. Vanhæfisannmarki er almennt ógildingarannmarki.

Meðal skilyrðanna fyrir ógildingu er að annmarkinn hafi verið verulegur og það séu ekki verulegir hagsmunir sem vegi á móti henni. Þar er spurningin til dæmis hvort aðrir aðilar séu byrjaðir að vinna á grundvelli skipulagsins í góðri trú og ógilding setti þeirra áform í uppnám,“ segir Hafsteinn.

Töf líklegasta niðurstaðan


Hann segir að umboðsmaður taki nokkuð ákveðið af um það hvort aðkoma starfsmannsins hafi verið það lítilfjörleg að hún hafi ekki ekki haft áhrif á málið, hún hafi verið veigamikil. Ráðherra þurfi hins vegar að meta það frekar, en ráðuneytið benti á að starfsmaðurinn hefði aðeins verið einn margra sem kom að gerð minnisblaðsins.

Jafnvel þótt skipulagið yrði ógilt er ekki þar með sagt að málið færi aftur á byrjunarreit. Aðeins yrði um staðfestingu ráðherra þar að ræða sem þýðir að ráðuneytið þyrfti að endurtaka málsmeðferð sína. Á móti er það hlutverk ráðherra að kanna hvort annmarkar hafi verið á efni eða formi skipulagsins. Komist ráðherra að þeirri niðurstöðu að svo sé gæti þurft að fara lengra aftur í ferlinu.

Finni ráðherra ekki frekari annmarka á skipulaginu eða meðferð þess á fyrri stigum verði niðurstaðan trúlega sú sama, að skipulagið verði staðfest. Niðurstaðan verði því töf en ekki viðsnúningur.

Ráðuneytið hefur þrjá mánuði til að svara


Aðspurður um möguleika á dómsmálum í kjölfar álitsins bendir Hafsteinn aðallega á skaðabótamál. Til þess þurfi hagsmunaaðili að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni af saknæmri háttsemi stjórnvalda. Skýrasta dæmið sé aðili sem fengið hafi leyfi til athafna á grundvelli skipulags sem ekki átti að veita.

Hjá ráðuneytinu fengust þær upplýsingar að þar sé verið að fara yfir álitið. Umboðsmaður hafi óskað eftir upplýsingum innan þriggja mánaða um hvort og hvernig verði brugðist við álitinu. Við því verði orðið.