Umboðsmaður bendir á ráðherra vegna kvartana um tafir á Seyðisfirði
Umboðsmaður Alþingis hefur vísað frá tveimur kærum vegna tafa á útgáfu rekstrarleyfis fiskeldis í Seyðisfirði þar sem aðrar kæruleiðir teljast ekki fullreyndar. Tæpt ár er liðið síðan tillaga að rekstrarleyfi var auglýst.
Í svörum umboðsmanns kemur fram að embættið hafi í sumar fengið til sín tvær kærur vegna tafa á ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfisins. Aðra frá félagasamtökum, hina frá eigendum sjávarjarða.
Matvælastofnun auglýsti tillögu að rekstrarleyfinu um miðjan desember í fyrra og var frestur til athugasemda veittur til 20. janúar. Samkvæmt lögum á ákvörðun um leyfið að liggja fyrir eigi síðar en fjórum vikum síðar.
Athugasemdirnar kölluðu á frekari rannsóknir, meðal annars með tilliti til staðsetninga eldiskvíanna. Ákvörðun um leyfið liggur ekki enn fyrir, tæpum ellefu mánuðum eftir að tillaga um það var auglýst.
Ekki hagsmunir umfram íbúa
Náttúruverndarsamtökin kvörtuðu yfir því í sumar að málsmeðferð MAST væri komin fram yfir tilskilinn frest. Það gæti valdið því að andmælaréttur við útgáfuna yrði skertur.
Umboðsmaður hafnaði kærunni á þeirri forsendu að til að teljast aðili máls yrðu viðkomandi að hafa réttindi eða hagsmuni fram yfir aðra. Embættið taldi kvörtunina beinast að almennum hagsmunum Seyðfirðinga, ekki samtakanna sjálfra.
Kæruleiðir ekki fullreyndar
Fleiri atriði voru tínd til í kæru landeigendanna, en umboðsmaður hafði síðasta vetur hafnað annarri kæru þeirra sem snéri meðal annars að því að hnit eldisstöðvanna væru ekki tilgreind í tillögunni og MAST neitaði að láta þau af hendi.
Umboðsmaður taldi ýmis umkvörtunarefni landeigendanna, eins og um hnitsetninguna eða málsmeðferð MAST, eiga heima hjá öðrum stjórnvöldum, eftir föngum úrskurðarnefnd um upplýsingamál eða úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál. Ekki er hægt að kæra til umboðsmanns fyrr en aðrar kæruleiðir hafa verið fullreyndar.
Varðandi kvartanir undan töfum MAST vísar umboðsmaður á atvinnuvegaráðuneytið. Umboðsmaður tekur þó fram að í því felist engin ábending um væntanlega niðurstöðu þess.