Skip to main content
Mynd úr safni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar kom við á Egilsstöðum í æfingaflugi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2025 16:07Uppfært 13. okt 2025 16:09

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar fór í víðtækt æfingaflug í gær þar sem meðal annars var komið við á Egilsstöðum og æft í Kverkfjöllum.

Að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, var siglingafræði aðaltilgangur æfingarinnar sem var óvenju víðtæk þar sem flogið var yfir landið.

„Það er meðal annars til að minna á að Landhelgisgæslan er fyrir alla landsmenn. Það er nokkuð síðan þyrlan hefur verið fyrir austan og yfirleitt er slíkt vegna útkalla,“ segir hann.

TF-GRÓ lenti á Egilsstöðum um kvöldmatarleytið til að taka eldsneyti á þyrluna auk þess sem áhöfnin fór í mat. Á leiðinni austur voru fjallahífingar æfðar í Kverkfjöllum.

Á leiðinni til baka var flug með nætursjónauka æft. Þá var stoppað í Bláfjalli, sunnan við Mývatn og æfðar bæði hífingar og lendingar í fjallendi.