Skip to main content
Hugmyndir komu fram um ýmsa þjónustu og eða iðnað í húnsæði Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á sínum tíma en hluti svæðisins er á hættusvæði sem flækir hlutina. Mynd GG

Þrýsta á um að tillögur að uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði raungerist

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. okt 2025 14:25Uppfært 15. okt 2025 12:12

Heimastjórn Seyðisfjarðar hefur beint þeim tilmælum til sveitarstjóra Múlaþings að brýnt sé að gangur komist á tillögur þær sem samráðshópur um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á staðnum kynnti fyrir einu og hálfu ári. Lítið hefur þokast síðan.

Sá starfshópur, sem samanstóð af fólki frá Austurbrú, Múlaþingi og Síldarvinnslunni, var settur á laggirnar síðla árs 2023 í kjölfar ákvörðunar Síldarvinnslunnar að loka endanlega bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði en nokkur fjöldi fólks missti þar með atvinnu sína. 

Bárust hópnum margar hugmyndir að atvinnuuppbyggingu sem stoð ætti sér til framtíðar en brýnt væri að hratt væri unnið. Þar helst að skipta frystihúsinu niður í iðnaðar eða þjónustubil af einhverju tagi, koma upp samvinnuhúsnæði á borð við Múlann í Neskaupstað og að byggja nýtt hótel.

Síðan hefur lítið þokast og engar þeirra hugmynda sem þá voru samþykktar komnar á alvarlegt skrið samkvæmt heimildum Austurfréttar. En með tilliti til að nýlega versnaði staðan enn meira með ákvörðun Síldarvinnslunnar að leggja Gullveri NS12 telur heimastjórn afar brýnt að hugmyndirnar verði að veruleika fyrr en síðar.

„Mikilvægt er að vinna Síldarvinnslunnar og Múlaþings varðandi þessi verkefni haldi áfram með það að markmiði að þau raungerist.“

Gullver í gömlu litunum við löndun árið 2021. Mynd: Ómar Bogason