Telur álit ráðuneytisins ekki áfellisdóm yfir ferlinu

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn, kveðst fagna því að álit mennta- og barnamálaráðuneytisins á breytingum á fyrirkomulagi fræðslumála í Fjarðabyggð liggi fyrir.

„Úr því sem komið er þá er ánægjulegt að niðurstaðan liggi fyrir. Í okkar huga er það lykilatriði að þær breytingar sem við lögðum upp með eru löglegar, þótt við hefðum mátt vanda betur til verka.

Vinna við það er hafin og við ætlum okkur að fara í samráðs- og kynningarferli samkvæmt þeim ráðleggingum sem ráðuneytið hefur gefið okkur,“ segir Ragnar.

Tekist á um hve miklar breytingarnar eru


Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti í lok febrúar að sameina skólastofnanir eftir skólastigum og leggja niður störf aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra sérkennslu. Kennarasambandið mótmælti breytingunum og óskaði eftir áliti ráðuneytisins á þeim.

Úrskurður þess barst í gærkvöldi. Það segir að bæjarstjórn þurfi að taka málið aftur fyrir að fengnum umsögnum skólaráðs grunnskóla og foreldraráðs leikskóla en lögum samkvæmt ber að hafa samráð við þau við meiriháttar breytingar.

„Ráðuneytið horfir öðrum augum á þessar breytingar en við. Starfshópurinn taldi þær ekki það viðamiklar að þær kölluðu á þetta samráðsferli. Það er túlkunaratriði sem við drögum lærdóm af. Það álit er hins vegar ekki áfellisdómur.“

Á móti gerir ráðuneytið engar faglegar athugasemdir við skipulagsbreytingarnar, segir þær í samræmi við lög og að sveitarfélagið hafi talsverðar heimildir til að ákveða bæði fyrirkomulag stofnana og stjórnskipan þeirra.

Gefinn verður nægur tími til samráðs


Ragnar segir ánægjulegt að svör ráðuneytisins liggi nú fyrir því óvissa hafi verið uppi í kjölfar athugasemda Kennarasambandsins. Framundan sé kynningarferli sem væntanlega hefjist á að ráðunum verði sendar beiðnir um umsagnir ásamt kynningarefni og því síðan fylgt eftir með kynningarfundum.

Framhald málsins verði metið þegar þær liggi fyrir. Hann segist ekki telja ástæðu til að kalla starfshópinn, sem stóð að tillögunum, saman aftur nema umsagnirnar verði þeim mun viðameiri.

Þegar vinna við endurskoðun fyrirkomulags fræðslumála hófst síðasta haust var gert ráð fyrir að breytingar tækju gildi næsta haust. Ákvörðunin í febrúar studdi við það. Nú tveimur mánuðum síðar virðist hæpið að það náist.

Aðspurður um nýjar tímasetningar segir Ragnar að þær liggi ekki fyrir. „Það vill enginn hafa þetta of lengi hangandi yfir sér þannig að gagnvart næsta skólaári og mögulegri óvissu þarf að ganga eins hratt til verka og hægt er. Það má þó ekki bitna á samráðsferlinu. Samráðsferlið gengur út á að leyfa öllum að koma að málinu áður en ákvarðanir eru teknar og við verðum að gefa okkur tíma til þess.“

Málið verið öllum erfitt


Deilur um ákvörðun bæjarstjórnar hafa verið hatrammar með ályktunum, undirskriftalistum, greinaskrifum, uppsögnum og nýjum meirihluta í bæjarstjórn. Ragnar segir að þrátt fyrir deilurnar síðustu tvo mánuði sé von um að hægt sé að ná sáttum.

„Þetta mál hefur verið öllum erfitt, hvort sem það eru skólastjórnendur, kennarar, foreldrar, bæjarfulltrúar eða framboðin. Allar breytingar eru erfiðar, ekki síst í fræðslumálum því þær snerta samfélagið á svo víða.

Við vissum að þetta yrði erfitt og þess vegna fóru flokkarnir af stað sammála um að skoða hvort hægt væri að ná fram samlegð í stjórnskipulagi og hagræðingu í rekstri án þess að skerða faglegt starf skólanna og vildu reyna að gera það í fullri sátt.

Það er ljóst að svo varð ekki en þar sem ekki er búið að fullgilda ákvörðunina þá gefst okkur færi á að bæta samráðið. Ég vænt þess að það verði gott samstarf milli allra sem að því koma þannig þeir komi sínum sjónarmiðum á framfæri og tillit verði tekið til þeirra þegar málið verður munnið áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.