Telja bæjarstjórn ekki hafa heimild til að ákveða millistjórnendur í skólum

Kennarasamband Íslands hefur óskað eftir að mennta- og barnamálaráðuneytið veiti álit vegna fyrirhugaðra breytingar á skólastofnunum í Fjarðabyggð. Sambandið telur bæjarstjórn skorta lagaheimildir til að ákveða verkskiptingu annarra stjórnenda en skólastjóra.

Þetta kemur fram í erindi sem sambandið sendi ráðuneytinu í gær með ósk um að ráðuneytið veiti álit og viðbrögð á fyrirhuguðum breytingum, meðal annars um hvort þær standist lög og faglegar kröfur.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á aukafundi fyrir viku breytingar sem í grófum dráttum ganga út á að skólar sveitarfélagsins sameinast í stofnanir sem afmarkast af skólastigum. Áfram verði starfsstöðvar í hverjum byggðakjarna og skólastjórar yfir þeim. Að auki verði ráðnir fagstjórar sem leiði annars vegar leikskólastofnunina, hins vegar grunnsskólastofnunina og séu þeim til stuðnings.

Í leik- og grunnskólum verða ekki lengur aðstoðarskólastjórar heldur verkefnastjórar. Þeim er ætlað að vera staðgenglar skólastjóra og tengilliðir vegna farsældarlaga. Þá á að leggja niður stöður deildarstjóra sérkennslu en ráða þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa til skólaþjónustu Fjarðabyggðar. Meirihlutinn klofnaði í atkvæðagreiðslu um málið.

Skólastjórar ákveði hvaða stjórnendur séu til staðar


Í bréfi Kennarafélagsins er lýst efasemdum um að bæjarstjórn hafi heimild til að endurskipuleggja hlutina með þessum hætti. Vísað er til ákvæða í lögum um öll skólastigin, sem og samþykktir Fjarðabyggðar, að skólastjóri skipuleggi stjórnun skólanna, bæði verkskiptingu og ráðningar. Bæjarstjórn hafi aðeins lögsögu yfir sviðsstjórum eða starfsfólki sem heyri beint undir bæjarstjóra.

Með vísan til laganna er bent á að það sé því ekki sveitarstjórnar að ákveða hvort til staðar séu aðstoðarskólastjórar, deildarstjórar eða hvers konar deildarstjórar heldur skólastjóranna. Í lögunum segi að ef ekki sé til staðar annar stjórnandi í skólum með færri en 60 nemendur ákveði skólastjóri hver af föstum kennurum skólans sé staðgengill hans. Þar sem nær allir skólar Fjarðabyggðar séu yfir þessu viðmiði þá sé ekki hægt að leggja þau verk á fasta kennara.

Vísað er til kjarasamninga um að verkefnastjórar séu aðeins tímaráðnir. Þeim sé ekki ætlað að vera staðgenglar stjórnenda eða taka við ábyrgð þeirra, svo sem mannaforráðum. Um tónlistarskólanna segir að farið sé niður fyrir lágmarkshlutfall í stjórnun samkvæmt lögum. Hugmyndir um fagstjórana er gagnrýnd á þeim forsendum að samkvæmt lögum geti þeir borið ábyrgð á faglegu starfi, það sé aðeins skólastjóranna. Að lokum er bent á að auknar kröfur séu gerðar til stjórnenda í nýjum lögum, svo sem um farsæld barna, auk þess sem almennar kröfur svo sem um mannauðsstjórnum bætist við.

Samráð í lögum um leik- og grunnskóla


Kennarasambandið telur það stríða gegn lögum um bæði leik- og grunnskóla að breytingarnar hafi ekki verið bornar undir skólanefndir, skólaráð, foreldraráð, foreldrafélög eða nemendafélög. Þá vísar það til ákvæða í samþykktum Fjarðabyggðar um íbúalýðræði þar sem segir að veita skuli íbúum upplýsingar um mikilvæg málefni.

Undir erindið til ráðherra rita Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Anna Rós Sigmundsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Kennarasambands Íslands. Þau funduðu með bæjarstjóra Fjarðabyggðar og fleiri stjórnendum síðasta föstudag.

Foreldrafélög leik- og grunnskóla sendu frá sér ályktun í gær þar sem breytingunum var mótmælt. Þar eru vinnubrögð bæjarstjórnar fordæmd á þeim forsendum að ekkert samráð hafi verið haft við stjórnendur, foreldra eða aðra aðila skólasamfélagsins. Breytingarnar byggja á vinnu starfshóps sem í voru fulltrúar skólastjórnenda. Þeir hafa sagt að ekki hafi verið hlustað á þeirra tillögur. Nokkuð endanlegar hugmyndir voru einnig kynntar á fundi með skólastjórnendum nokkrum dögum fyrir samþykktirnar.

Foreldrafélögin segja vinnubrögð í málinu lýsa þekkingarleysi og vanvirðingu gagnvart starfi skólanna og hætta sé á að þjónusta við börn skerðist. Vísað er í lög um grunnskóla um að skólaráð skuli fá til umsagnar áætlanir um meiriháttar breytingar um skólahald eða starfsemi skóla áður en ákvarðanir séu teknar. Í lögum um leikskóla er þetta vald falið foreldraráði.

Tæplega 650 manns hafa nú skrifað undir undirskriftalista þar sem skorað er á bæjarstjórn Fjarðabyggðar að draga samþykkt sína til baka.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.