Skólastjórar í Fjarðabyggð telja ekki hafa verið hlustað á þeirra sjónarmið

Skólastjórnendur grunnskóla í Fjarðabyggð segja að ekki hafi verið haft samráð við þá við undirbúning breytinga á skólum sveitarfélagsins sem bæjarstjórn samþykkti á þriðjudag. Þeir óttast að skólaþjónusta skerðist og telja aðgerðirnar mögulega brjóta gegn kjarasamningum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá skólastjórunum að loknum fundi þeirra á Reyðarfirði í dag. Þar segjast þeir ósáttir við fyrirhugaðar breytingar í skólamálum og rangfærslur sem fram hafi komið í kjölfarið.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti tillögu starfshóps um fræðslumál á fyrirkomulagi skólamála á þriðjudag. Í grófum dráttum gengur hún út á að hvert skólastig, það er grunnskóli, leikskóli og tónskóli, verði sameinað í eina stofnun en síðan verði starfsstöðvar í hverju byggðarlagi með skólastjóra.

Störf aðstoðarskólastjóra eru lögð niður í staðinn ráðnir verkefnastjórar sem tengilliðir og staðgenglar. Störf deildarstjóra sérkennslu verða lögð niður í skólunum en bætt í skólaþjónustu sveitarfélagsins með ráðningu nýrra sérfræðinga.

Meirihlutinn klofnaði


Meirihlutinn í bæjarstjórn Fjarðabyggðar klofnaði í málinu. Hjördís Helga Seljan, fulltrúi Fjarðalistans og grunnskólakennari, greiddi atkvæði gegn tillögunni. Hún lýsti efasemdum um að breytingarnar yrðu til góðs og sagði ekkert samráð hafa verið haft við starfsfólk eða foreldra.

Fjarðalistinn myndar meirihluta í bæjarstjórn með Framsóknarflokki. Listarnir hafa samanlagt fimm fulltrúa, Fjarðalisti tvo og Framsókn þrjá en Sjálfstæðisflokkurinn er einn í minnihluta með fjóra fulltrúa. Hinn fulltrúi Fjarðalistans, oddvitinn Stefán Þór Eysteinsson, var í starfshópnum og er að auki formaður bæjarráðs sem samþykkti tillögurnar samhljóða nokkrum tímum fyrir bæjarstjórnarfundinn.

Hann, eins og aðrir bæjarfulltrúar en Hjördís, samþykktu breytingarnar í bæjarstjórn. Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði mótatkvæðið koma á óvart og það væri ekki traustvekjandi fyrir minnihlutann að sjá slíkar deilur innan meirihlutans þegar reynt væri að vinna að málum í sátt.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknarflokks, lýsti einnig furðu sinni. Hann sagði að rætt hefði verið við skólastjórana við mótun tillagnanna. Jón Björn átti sæti í hópnum en kallaði inn varamann fyrir umrædda fundi vegna anna við útför móður hans.

Óttast að breytingarnar standist ekki lög


Ljóst er að málið hefur vakið mikla ólgu. Í fyrsta lagi er titringur í meirihlutanum en líka samfélaginu, einkum í kringum skólana, sem birtist í yfirlýsingu skólastjóranna. Þar hafna þeir því að samráð hafi verið haft við þá eða aðra úr skólasamfélaginu um breytingarnar og engar upplýsingar komið fram um þær fyrr en á bæjarstjórnarfundinum.

Þeir segja fulltrúa skólastjórnenda í samráðshópi hafa verið meinað að eiga samráð við eða upplýsa aðra skólastjórnendur um starf hópsins. Það hafi ekki verið tekið mark á þeirra tillögum.

Skólastjórnendurnir lýsa ótta yfir að breytingarnar skerði skólaþjónustu við grunnskólabörn og vegi að lögvörðum réttindum þeirra til náms. Vísað er til þess að lög um farsæld barna leggi skyldur á herðar aðila í skólasamfélaginu. Stjórnendur óttast að ekki náist að uppfylla þær að fullu með breytingunum.

Þá kemur fram að Kennarasamband Íslands hafi bent á að ákvörðun bæjarstjórnar kunni að brjóta gegn lögum um grunnskóla sem og kjarasamningi Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.