Fjarðabyggð telur sveitarfélög í fullum rétti til að ákveða skipurit skóla

Fjarðabyggð telur sjálfákvörðunarrétt sveitarfélaga tryggja því heimildir til breytingar á stjórnskipulagi skólastofnana. Þá telur það fyrirhugaðar breytingar á skólastofnunum ekki það umfangsmiklar að borið hafi að setja þær í umfangsmikil umsagnarferli.

Þetta kemur fram í svarbréfi Fjarðabyggðar til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Austurfrétt fékk svarið afhent með vísan í upplýsingalög. Ráðuneytið óskaði viðbragða sveitarfélagsins eftir að Kennarasamband Íslands (KÍ) bað um álit ráðuneytisins á fyrirhuguðum breytingum á skólastofnunum Fjarðabyggðar.

Sem kunnugt er þá samþykkti bæjarstjórn Fjarðabyggðar að sameina skóla sveitarfélagsins eftir skólastigum, leggja niður störf aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra sérkennslu en ráða í staðinn sérhæfða ráðgjafa í skólaþjónustu og verkefnastjóra í skóla með skólastjórum.

Breytingarnar vöktu hörð viðbrögð og sprengdu meirihlutasamstarfið í Fjarðabyggð. Foreldrafélög í Fjarðabyggð og félög kennara, bæði á Austurlandi sem á landsvísu, hafa mótmælt. Um 650 íbúar skrifuðu undir undirskriftalista með áskorun um að áformin yrðu dregin til baka. Kennarasambandið óskaði eftir áliti ráðuneytisins á lögmæti breytinganna og hvort þær uppfylli faglegar kröfur samkvæmt lögum.

Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi


KÍ telur breytingarnar ólöglegar þar sem skólastjórnendur hafi samkvæmt lögum, einkum um grunnskóla, einir stjórn á skipan millistjórnenda í skólanna. Fjarðabyggðar vísar á móti til þess að sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga sé bundinn í stjórnarskrá auk þess sem þau hafi fjárstjórnarréttinn. Í því felist frumkvæðisréttur til að hafa áhrif á alla þætti sem komið geti til kasta sveitarfélaga, svo sem málefni einstakra stofnana eða málefnasviða.

Fjarðabyggð bendir á greinar úr lögum um grunnskóla og greinargerð með lögunum um að sveitarfélög beri ábyrgð á heildarskipan skólahalds og geti ákveðið stjórnun skóla, til dæmis haft fleiri en einn skólastjóra við sama skóla.

Skólastjórar ekki einvaldar


Samkvæmt lögunum fari skólastjóri með ráðningarvald innan þess ramma sem sveitarstjórn setur. Þar með geti skólastjórinn ekki einn, án endurskoðunar sveitarfélags, ákveðið hvaða stöðugildi séu til staðar. Sveitarfélagið segir ætlunin ekki hafa verið að taka allt vald af skólastjórunum, heldur hafi verið eftir að skilgreina nánar hlutverk millistjórnendanna og það hafi verið í höndum skólastjóranna.

Fjarðabyggð vísar einnig til úrskurða sem fallið hafa vegna sameininga eða lokana skóla þar sem segir að sveitarstjórn hafi ótvírætt vald til að ákveða skipulagsbreytingar á rekstri grunnskóla, meðal annars í því skyni að spara fjármuni. Í lögunum sé ekki fjallað um sameiningu

Í grunnskólalögunum er ekki fjallað sérstaklega um sameiningar skóla á sama skólastigi. Svör Fjarðabyggðar við athugasemdum um leik- og tónlistarskóla eru á svipuðum slóðum, utan þess að sveitarfélagið telur sig hafa þar ríkara rými til breytinga því lögbundin hlutverk skólastjórnenda séu ekki skilgreind jafn ítarlega í þeim lögum.

Segjast vilja auka stjórnunarhlutfall í tónlistarskólum


Um skólastjóra tónlistarskólanna segir það að hlutverk þeirra sé ekki skýrt afmarkað í núverandi kjarasamningi og varasamt að halda í inngangsákvæði úr eldri samningum. Ef sú túlkun yrði ofan á væri vegið að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga því sveitarfélagið hefði þá ekki ekki aðkomu að skipulagi eða skipuriti tónlistarskólanna heldur ákvæði aðeins fjárframlög.

Fjarðabyggð lýsir sig sammála ákvæði í nýjasta kjarasamningnum um að auka þurfi stjórnunarhlutverk og heitir að það verði tryggt við breytingarnar. Þá segir Fjarðabyggð að breytingar í tónlistarskólunum séu minni en í leik- og grunnskólum.

Telja fagstjórana nýsköpun


KÍ gagnrýndi áform Fjarðabyggðar um að ráða sérstaka fagstjóra fyrir leik- og grunnskólana og sagði þá ekki hafa hlutverk nema skólarnir sjálfir óskuðu sérstaklega eftir því. Sveitarfélagið svarar því til að skipun fagstjóranna sé til að ná bæði faglegum og fjárhagslegum markmiðum í fræðslumálum.

Ekki megi binda svigrúm sveitarfélagsins um of til nýsköpunar í málaflokki sem taki til sín stærstan hluta útgjalda þess, þótt störfin séu ekki skilgreind í kjarasamningum. Túlkanir í aðra vegu myndu vega að sjálfsákvörðunarréttindum. Fjarðabyggð lýsir sig opna fyrir að aðlaga starfslýsingar fagstjóranna þannig tekið verði fyrir að þeir sinni hlutverkum sem falli undir lögbundnar skyldur skólastjóranna.

Ekki verður séð í svarinu að gagnrýni KÍ um að skilgreining í kjarasamningum á starfi verkefnastjóra komi í veg fyrir að þeir geti komið í stað aðstoðarskólastjóra sé svarað með beinum hætti.

Hafna ávirðingum um samráðsleysi


Í svarbréfinu, sem undirritað er af Jónu Árnýju Þórðardóttur bæjarstjóra, er ferill málsins að nokkru rakinn. Að í október hafi verið skipaður starfshópur með kjörnum fulltrúum og fagaðilum úr skólakerfinu sem skilað hafi sér fjórum sviðsmyndum sem síðan hafi verið unnar áfram. Það hafi verið gert af nýjum starfshópi kjörinna fulltrúa og loks hafi ein sviðsmyndin orðið ofan á.

Í svarinu segir hreint út að Fjarðabyggð mótmæli því að ákvörðunin hafi verið tekin án samráðs. Þann 22. febrúar hafi skólastjórnendur verið boðaðir á fund og kallað eftir athugasemdum þeirra. Þær hafi verið teknar til umfjöllunar strax daginn eftir. Þá hafi fræðslunefnd reglulega verið upplýst um framvindu mála.

Segja breytingarnar minniháttar og því ekki umsagnarskyldar


Sveitarfélagið telur að því hafi ekki verið skylt að bera breytingarnar undir aðra aðila, svo sem foreldrafélög, foreldraráð, nemendafélög eða skólaráð eins og KÍ telur í sinni kvörtun. Ágreiningurinn snýst um hvort líta beri á breytingarnar sem umfangsmiklar, en samkvæmt lögum ber að fara með meiriháttar breytingar í víðtækt formlegt samráð.

Í svari Fjarðabyggðar segir að ekki sé augljóst að sveitarfélaginu hafi í öllum tilvikum borið skylda til að bera breytingarnar undir einstök félög því skipuritsbreytingar í einstökum skólum geti verið takmarkaðar, til dæmis þær sem hafi áhrif hafi á minna en eitt stöðugildi í skóla. „Slíkar breytingar teljast almennt minniháttar og valda því ekki að lögmyndin skylda myndist til að kynna þær breytingar fyrir skólaráðum grunnskóla og foreldrafélögum leikskóla.“

En sveitarfélagið slær líka varnagla um að þótt þar hafi lögunum ekki verið framfylgt þá séu fordæmi ráðuneytisins þau að það leiði ekki til ógildingar ákvörðunar. Í þeim fordæmum sem vísað er til eru einstök sveitarfélög snupruð fyrir að hafa ekki sinnt samráði eins og ætlast sé til en jafnframt tekið fram að ósennilegt sé að það hefði breytt nokkru um niðurstöðuna.

Óska leiðbeininga hafi ekki verið staðið rétt að


Fjarðabyggð kveðst þó meðvituð um mikilvægi góðs samráðs og óskar leiðbeininga ráðuneytisins úrskurði það að viðhafa skuli víðtækara samráð en gert hefur verið. Að sama skapi óskar sveitarfélagið samvinnu við ráðuneytið verði niðurstaða þess sú að ekki hafi verið rétt staðið að breytingunum. Hins vegar vegi það alvarlega að sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga verði allar athugasemdir KÍ teknar til greina.

Óskað er eftir niðurstöðu sem fyrst þannig hægt sé að eyða öllum vafa þannig hægt sé að hægt sé að halda áfram til að breytingarnar verði fyrir næsta skólaár. Fjarðabyggð segir markmið þeirra breytinga, að bæta þjónustuna og nýta fjármunina til að þjónusta betur nemendur á öllum skólastigum.



 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.