Beðið eftir áliti menntamálaráðuneytisins

Sveitarfélagið Fjarðabyggð vinnur að svari til mennta- og barnamálaráðuneytisins varðandi fyrirspurnir Kennarasambands Íslands um hvort fyrirhugaðar breytingar á skólastofnunum sveitarfélagsins standist lög. Félög kennara halda áfram að mótmæla áformunum.

Tvær vikur eru í dag síðan bæjarstjórn Fjarðabyggð samþykkti breytingarnar. Þær fela í grófum dráttum í sér að skólarnir verða sameinaðir eftir skólastigum. Áfram verða starfsstöðvar með sérstökum skólastjórum á hverjum stað, hlutverk aðstoðarskólastjóra breytist í verkefnastjóra og störf deildarstjóra sérkennslu verða lögð niður. Á móti ræður sveitarfélagið fagstjóra fyrir leik- og grunnskóla og bætir í skólaþjónustu sína.

Kennarasamband Íslands sendi mennta- og barnamálaráðuneytinu erindi fyrir viku þar sem lýst er efasemdum um lögmæti breytinganna á þeim forsendum að skólastjórar, ekki sveitarfélagið, ákveði millistjórnendur í skólum. Þá er í því erindi gerðar athugasemdir við að ekki hafi verið haft samráð við aðila á borð við skólaráð, foreldraráð og fleiri eins og beri að vera við meiriháttar breytingar.

Kennarafélög mótmæla breytingunum


Kennarasamband Austurlands sendi frá sér ályktun fyrir helgi þar sem vinnubrögð bæjarstjórnar eru fordæmd og þau sögð lýsa þekkingarleysi og vanvirðingu á faglegu starfi innan skólanna. Stuðningi er lýst við skólastjórnendur.

Félag stjórnenda leikskóla samþykkti á föstudag ályktun þar sem skorað er á Fjarðabyggð að hverfa frá breytingunum. Varað er við stjórnunarbreytingunum og bent á að umfang stjórnunar í leikskólum hafi aukist verulega síðustu ár, með ýmsum ákvörðunum stjórnvalda svo sem farsældarlögunum. Þess vegna sé nær að efla aðstoðarskólastjórastarfið með þjálfun auk þess að nýta reynslu viðkomandi einstaklinga.

Bæjarfulltrúar fengu ekki boð um að taka við undirskriftum


Sama dag voru afhentir undirskriftalistar með 755 undirskriftum þar sem breytingunum var mótmælt. Listarnir voru lagðir fram á fundi bæjarráðs í gær. Í bókun segir að farið verði yfir þær athugasemdir sem borist hafi síðustu daga.

Þar er tekið fram að bæjarfulltrúar hafi ekki fengið boð um að vera viðstaddir þegar listarnir voru afhentir. Að auki hafi bæjarstjóri og nokkrir bæjarfulltrúar þegar verið bókaðir á þessum tíma þannig að boðið hafi verið að taka á móti listanum á öðrum tíma. Gagnrýnt var að enginn bæjarfulltrúi væri viðstaddur en millistjórnandi af skrifstofu sveitarfélagsins tók við listunum.

Vilja vinna hratt


Í bókuninni segir einnig að beðið sé eftir áliti mennta- og barnamálaráðuneytisins. Ráðuneytið sendi á föstudag fyrirspurn á Fjarðabyggð þar sem sveitarfélaginu var boðið að koma á framfæri sínu sjónarhorni. Sá frestur er til 22. mars.

Bæjarfulltrúar sem Austurfrétt hefur í þessari viku rætt við segja að á þessu stigi sé ekki miklu við bókun ráðsins að bæta. Vonast er til að ráðuneytið vinni hratt til að hægt verði að eyða eða bregðast við mögulegri lagalegri óvissu. Þess vegna sé í forgangi að svara fyrirspurnum ráðuneytisins. Það sé ekki búið en verði gert í þessari viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.