Skip to main content
Margir veitt vel síðustu mánuðina undan Austurlandi og borgfirsk útgerð þar engin eftirbátur

Góður afli smærri báta á land á Austfjörðum það sem af er vetri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2025 11:28Uppfært 13. nóv 2025 11:50

Haustið og veturinn hingað til hafa verið nokkuð gjöful sjómönnum á smærri bátum eins og reyndar hefur verið raunin mörg síðustu árin en þeir margir hverjir landa í höfnum Austfjarða þó heimahafnir þeirra séu annars staðar á landinu.

Með fáeinum undantekningum hefur veðurfar til veiða undan Austurlandi verið allbærilegt það sem af er hausti og vetri og góðar glufur gefið færi á róðrum smærri bátanna. Sérstaklega hefur byrjun nóvember reynst góður til veiða þó syrt hafi í álinn allra síðustu dagana að sögn Kára Borgars Ásgrímssonar sem gerir út frá Borgarfirði.

„Ég myndi segja að veðurfarið hafi verið bærilegt alveg hingað til og svona nokkuð á pari við þennan árstíma undanfarin ár. Það verið nóg af fiski en ef eitthvað er þá hefur hann kannski verið aðeins smærri en almennt gerist. En árið allt verið mjög bærilegt fyrir flesta held ég.“

Undir það að veiðin hafi almennt verið góð tekur Elís Pétur Elísson hjá útgerðinni Gullrúnu á Breiðdalsvík þó hann segist ekki hafa orðið var við smærri fisk en í meðalári.

„Mjög góð veiði í haust og vetur og reyndar mun lengur en það því árið verið gott. Það var fyrirtaks veður allan október og fyrstu viku nóvember en síðan verið smá brælutíð sem reyndar sér nú fyrir endann á. En fiskurinn verið stór og góður og ekkert yfir því að kvarta.“


Línubátarnir

Aflahæstu línubátarnir í október reyndust vera Sighvatur GK-57 og Páll Jónsson GK-7 sem allra mest veiddu samkvæmt tölum Aflafrétta fyrir þann mánuð. Sighvatur landaði hartnær 600 tonnum og Páll Jónsson 556 tonnum en hluti afla þeirra fór á land á Djúpavogi.

Fjórir af átta aflahæstu línubátunum yfir 21 brúttótonnum í október komu einnig með allan sinn afla að höfn á Austurlandi. Þar á meðal tveir þeir aflahæstu: Kristján HF-100 með tæp 259 tonn og Hafrafell SU-65 með tæp 258 tonn. Aðeins neðar á listanum Vigur SF-80 og Auður Vésteins SU-88 sem einnig náðu yfir 200 tonna veiði.

Fjórir af aflahæstu línubátunum að 13 brúttótonnum í liðnum mánuði reyndust austfirskir. Þar, sem oft áður, Toni NS áberandi mest eða með rétt tæplega 33 tonn yfir mánuðinn. Fálkatindur NS-99 og Emil NS-5, einnig gerðir út frá Borgarfirði eystra gerðu einnig góða róðra og komu samanlagt að landi með tæp 29 tonn.

Það reyndist svo vera Jón Ásbjörnsson RE-777 sem mest fiskaði í hópi báta að 21 brúttótonni en heildarveiði þeirra í október reyndist 132,4 tonn alls. Þeim afla landað bæði á Djúpavogi og í Neskaupstað. Hafnarey SU-706 frá Breiðdalsvík reyndist þriðji aflahæsti báturinn í þessum flokki með 123,5 tonna veiði og Sunnutindur SU-95 frá Djúpavogi endaði sjöundi á listanum með rúm 86 tonn að landi.

Færabátarnir

Óvenju margir færabátar leituðu hófanna í októbermánuði þetta árið þó róðrarnir væru tiltölulega fáir hjá þeim flestum. Glettingur NS-100 frá Borgarfirði eystra halaði mestu inn í fimm róðrum alls með rúm 11 tonn og reyndist eini færabáturinn sem náði yfir 10 tonnin. Tveir aðrir færabátar úr Borgarfirðinum, Glaumur NS-101 og Axel NS-15 komu að landi með tæp 9 tonn í mánuðinum.