Skip to main content
Mynd tekin í sumar þegar Hollvinasamtökin voru formlega stofnuð en við það tækifæri heimsótti Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, og þakkaði samtökunum og hvatti til dáða. Mynd: Aðsend

Styrkja Hollvinasamtök Lindarbakka um hálfa milljón króna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. nóv 2025 11:16Uppfært 12. nóv 2025 11:18

Í sumar sem leið stofnuðu áhugasamir Borgfirðingar sérstök hollvinasamtök um torfhúsið Lindarbakka sem er helsti dýrgripur þorpsins að flestra mati. Í vikunni barst samtökunum svo góður styrkur upp á hálfa milljón króna frá aðstandendum Bræðslunnar og Emilíönu Torrini.

Meginhlutverk samtakanna er að safna fjármunum til endurbóta og viðhalds á húsinu með frjálsum framlögum en ekki síður til að verja til viðburða við húsið og greiða fyrir gæslu og eða leiðsögn þegar húsið er opið gestum. 

Vonandi hvatning til annarra

Styrkurinn upp á hálfa milljón kemur sér vel enda eitt og annað sem þarft er að gera til endurbóta og viðhalds á húsinu merka en með honum segist Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Bræðslunnar, jafnframt vonast til að kveikja áhuga hjá fleiri aðilum til að leggja sitt af mörkum.

„,Sjálfur stend ég nú reyndar aðeins til hliðar í þessum samtökum en stjórnin vill gera sitt besta til að allt sem að húsinu snýr sé gert rétt og vel í framtíðinni og að sjálfssögðu í góðu samráði við Minjavernd og sveitarfélagið Múlaþing. Vonin er að þetta framlag Bræðslunnar nýtist til að koma hreyfingu á hlutina en ekki síður vonandi hvatning til annarra aðila að leggja þessu mikilvæga verkefni lið. Það er hægt að framkvæma töluvert ef fjármagn fæst til efniskaupa og þess háttar. Samtökin eru á almannaheillaskrá sem þýðir að hægt er að fá skattaafslátt á móti öllum framlögum.“

Að sögn Áskells var önnur góð ástæða til að sýna þessu góðan stuðning og hún sú að Elísabet Sveinsdóttir, Stella á Lindarbakka, sem húsið átti frá árinu 1979 ásamt eiginmanni sínum var frá upphafi dyggur stuðningsmaður á fyrstu árum tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar sem löngu er orðin landsþekkt.

„Stella var okkar mesti peppari ef svo má að orði komast og hún var alltaf hvetjandi í bænum þegar fólk var að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. Hún var okkur mikill bandamaður frá upphafi og sat meira að segja á fremsta bekk á allra fyrstu Bræðsluhátíðinni.“

Standi vilji til að styðja við hollvinasamtökin með framlögum stórum eða smáum finnast allar upplýsingar á þessum vef.