Gagnrýna verðlækkanir hjá Héraðsþreki
Forsprakkar líkamsræktarstöðvarinnar Austur gagnrýna nýlegar gjaldskrárlækkanir hjá Héraðsþreki og krefjast endurskoðunar á þeirri gjaldskrá með tilliti til markaðsaðstæðna og að jafnræðis sé gætt. Jafnframt óska þeir eftir viðræðum um kaup Austur á öllum rekstri Héraðsþreks.
Austur og Héraðsþrek eru þær tvær líkamsræktarstöðvar sem starfandi eru á Egilsstöðum en Austur er einkarekið fyrirtæki meðan Héraðsþrek tilheyrir íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum sem aftur heyrir undir sveitarfélagið Múlaþing.
Austurfrétt greindi fyrir skömmu frá umsókn forsvarsmanna Austur um lóð undir nýja líkamsræktarstöð nálægt sundlaugarsvæði íþróttamiðstöðvarinnar. Þeirri ósk hafnað að sinni þar sem vinnsla framtíðarhugmynda fyrir svæðið allt séu of skammt á veg komnar eins og lesa má um hér.
Í sama erindi frá Austur komu einnig fram bæði áhyggjur og gagnrýni á nýlega verðlækkun á gjaldskrá Héraðsþreks og rök færð fyrir að það standist litla skoðun.
Í fyrsta lagi er bent á að gjaldskrá Héraðsþreks hafi fyrir síðustu lækkun gjaldskrár þegar verið undir almennum gjaldskrám líkamsræktarstöðva á Íslandi. Það jafnvel miðað við Sporthúsið og World Class sem búa yfir hvað mestri stærðarhagkvæmni. Síðasta lækkun grafi enn frekar undan jafnræði aðila á þessum markaði og setur einkaaðila í óþægilega stöðu. Bent er á að gjaldskrá Austur hafi ekki hækkað síðan árið 2017 og fyrirtækið því sannarlega sýnt hófsemi og ábyrgð. Í öðru lagi sé illa hægt að sundurliða gjaldskrá Héraðsþreks og gjaldskrá sundkorta Múlaþings sem geri samanburð óljósan fyrir viðskiptavini.
Síðast en ekki síst benda forsvarsmennirnir á að með núverandi verðlagningu sé ólíklegt að rekstur Héraðsþreks geti staðið undir sér. Eðlilegt sé að endurskoða gjaldskrána ellegar hefja viðræður við Austur um yfirtöku á rekstri Héraðsþreks sem í kjölfarið myndi greiða eðlilega húsaleigu undir þann rekstur.
Af hálfu fjölskylduráðs Múlaþings var ekki tekin efnisleg afstaða til gagnrýni eða tilboðs Austur en bókað að málið verði unnið áfram og starfsmanni ráðsins falið að taka saman gögn í samræmi við umræður á fundinum.