Skip to main content
Fólk án bílbelta er þrettán sinnum líklegra til að látast í umferðarslysum en það sem er í beltum. Mynd: GG

Austfirðingar ólíklegastir til að nota bílbelti

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. nóv 2025 14:25Uppfært 14. nóv 2025 14:27

Íbúar á Austurlandi eru latari en íbúar annarra landshluta við að spenna á sig bílbelti samkvæmt nýrri könnun. Þeirra sem látist hafa í umferðarslysum verður minnst um helgina víða um land, meðal annars með athöfnum á Breiðdalsvík, Egilsstöðum og Eskifirði.

Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu í aðdraganda minningardags um fórnarlömb umferðarslysa, sem haldinn er á morgun, eru Austfirðingar áberandi latari við að spenna á sig öryggisbelti en íbúar annarra landshluta.

Þar kemur fram að 16% Austfirðinga hafi sem ökumenn oft keyrt innanbæjar á síðustu sex mánuðum án þess að spenna á sig öryggisbeltin. Það er langhæsta hlutfallið. Á móti eru 63% sem alltaf spenna beltin, sem er lægsta hlutfallið. Segja má að svarið „oft“ sjáist vart í öðrum landshlutum.

Staðan gagnvart öðrum landshlutum breytist ekki þótt farið sé í farþegasætin. 9% Austfirðinga sögðust í könnuninni hafa oft verið farþegar í framsæti án belta en 75% aldrei sem er verri útkoma en annars staðar. Í aftursæti voru 16% oft eða stundum án belta en 73% aldrei.

Finnst ekki taka því að fara í belti fyrir stutta ferð

Staðan skánar þegar spurt er um bílferðir utan þéttbýlis en Austfirðingar eru samt verstir. 12% segjast oft ekki spenna beltin meðan 79% spenna þau alltaf, 9% spenna þau oft ekki þegar þeir sitja í framsætinu en 82% spenna þau alltaf og 15% spenna þau oft ekki í aftursætinu en 82% spenna þau alltaf.

Algengast er að fólk beri því við að gleyma beltunum eða telji þau óþarfa þegar farið er stutt. Austfirðingarnir segjast oftar en aðrir að þeir telja sig hreinlega öruggari án beltis eða þyki þau óþægileg. Að baki austfirsku svörunum eru 33 svarendur en á landsvísu 969. Könnunin var gerð í október.

Í tengslum við minningadaginn í ár er lögð sérstök áhersla á notkun bílbelta þar sem könnunin sýnir að 10-15% fólks eigi það reglulega til að spenna þau ekki. Samkvæmt nýrri samantekt Samgöngustofu var yfir helmingur þeirra sem lést í umferðinni innanbæjar undanfarin 20 ár ekki í beltum. Þrettán sinnum meiri líkur eru á að einstaklingar án belta látist í slysum en þeir sem eru það.

Minningarstundir á þremur stöðum

Þótt hinn eiginlegi minningardagur sé á morgun verða austfirsku athafnirnar allar á sunnudag. Á Eskifirði fara viðbragðsaðilar í hópakstur frá björgunarsveitarhúsinu klukkan 13:30. Þeir koma aftur þangað og minningarkaffi verður í húsinu frá 14-16.

Á Breiðdalsvík fer hópaksturinn af stað klukkan 15. Honum lýkur við Nesbúð þar sem verður kyrrðarstund.

Á Egilsstöðum verður athöfn við kirkjuna klukkan 15:00. Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri flytur þar ávarp.