Skip to main content
Frá vinstri til hægri: Hugrún Hjálmarsdóttir framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings, Björg Björnsdóttir safnstjóri Minjasafns Austurlands, Jón Arnórsson byggingarstjóri MVA, Magnús Baldur Kristjánsson framkvæmdastjóri MVA, Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings, Stefán Bogi Sveinsson forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Mynd Múlaþing

Annað skref framkvæmda við Safnahúsið á Egilsstöðum loks að hefjast

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2025 16:02Uppfært 13. nóv 2025 16:10

Ritað hefur verið undir formlegan samning Múlaþings og byggingarfyrirtækisins MVA um að þeir síðarnefndu byggi annan áfanga Safnahússins á Egilsstöðum. Þeirri uppbyggingu skal lokið um mitt sumarið 2027

Það tekið tímann sinn að ljúka framkvæmdum við húsið en bygging fyrsta hluta hússins, þess sem nú stendur, hófst fyrir 43 árum síðan. Tveir áfangar eru enn eftir og starfsemi í húsinu fyrir löngu búin að sprengja allt utan af sér. Í þessari atrennu skal bæta við annarri burst af þremur alls samkvæmt upphaflegum teikningum.

Allnokkrar breytingar til hins betra verða innan hússins þegar byggingu þessa annars hluta lýkur. Þá skal bæta aðgengi að Bókasafni Héraðsbúa til muna með því að færa það safnið niður um eina hæð auk þess sem Minjasafn Austurlands fær aukið sýningarrými innan hússins. Þá mun vinnuaðstaða starfsfólks stækka og batna í kjölfarið.

Sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sagði af þessu tilefni að stækkun hússins muni hafi mikil og góð áhrif.

„Það er ánægjulegt að sjá framkvæmdir við Safnahúsið loks verða að veruleika. Húsið hýsir þrjár mikilvægar menningarstofnanir og nýja viðbyggingin mun gjörbylta starfsemi þeirra.“