Skip to main content
Bíllinn var illa farinn eftur velturnar. Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar

Sluppu með skrekkinn eftir bílveltu á Öxi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. nóv 2025 10:32Uppfært 18. nóv 2025 10:33

Fimm erlendir ferðamenn sluppu með skrekkinn þegar húsbíll, sem þeir ferðuðust á um landið, fór út af í hálku á Öxi á sunnudagskvöld. Mikið virðist hafa vantað upp á að farþegar í bílnum væru í öryggisbeltum.

Bíllinn fór út af í hálku og fór 2-3 veltur. Einn farþeganna kastaðist út úr bílnum og lenti undir honum. Mjúkt undirlag virðist hafa bjargað honum.

Fólkið úr bílnum var allt flutt á Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað til skoðunar. Það virðist hafa sloppið með minniháttar meiðsli.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi eru tildrög slyssins í rannsókn. Bæði er verið að skoða útbúnað bílsins sjálfs sem og bílbeltanotkun, en svo virðist sem aðeins einn einstaklingur í bílnum hafi verið með belti spennt.

Austurfrétt greindi fyrir helgi frá niðurstöðum könnunar Samgöngustofu um að bílbeltanotkun virðist minni meðal Austfirðinga en íbúa annarra landshluta. Í tilkynningu með könnuninni kom fram að bílbelti dragi verulega úr líkum á banaslysum.

„Við brýnum alla vegfarendur til að nota þennan sjálfsagða öryggisbúnað,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Helgin var að öðru leyti róleg í lögregluumdæminu.