Skip to main content
Ólíkt velflestum íþróttahúsum öðrum í Múlaþingi er pláss takmarkað mjög við íþróttamiðstöð Egilsstaða svo vanda þarf mjög til verka við skipulagningu þess svæðis til framtíðar. Mynd GG

Ekkert byggt við íþróttamiðstöð Egilsstaða fyrr en 2030 í fyrsta lagi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. nóv 2025 14:07Uppfært 18. nóv 2025 14:16

Þrjár milljónir króna fara á næsta ári í íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum en það fjármagn er eyrnamerkt þarfagreiningu til framtíðar vegna hússins og svæðisins í kring. Það verður þó ekkert fjármagn laust til hönnunar af neinu tagi í kjölfarið fyrr en árið 2029 og þess vegna var engan veginn hægt af hálfu Múlaþings að verða við óskum forsvarsmanna líkamsræktarstöðvarinnar Austur um lóð undir nýja byggingu við sundlaugarsvæðið.

Austurfrétt greindi fyrir nokkru frá þeim óskum forsvarsmanna stöðvarinnar að fá lóð við sundlaugina í íþróttamiðstöðinni og byggja þar nýja líkamsræktarstöð með aðgengi að sundlaugarsvæðinu en slíkt víða verið gert og hefur heppnast vel.

Í svari umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings við óskinni kom fram að ekki væri unnt að svo stöddu að verða við beiðninni þar sem þarfagreining þyrfti að fara fram áður en ákvörðun væri tekin um nýtingu svæðisins kringum miðstöðina.

Minnst fimm ár í framkvæmdir á svæðinu

Formaður þess ráðs og forseti bæjarstjórnar, Jónína Brynjólfsdóttir, varpaði skýrara ljósi á þessa ákvörðun á síðasta sveitarstjórnarfundi en þar hafnaði hún því að hugmyndin hefði alfarið verið slegin út af borðinu eins og gefið var í skyn á þeim fundi.

„Samkvæmt fjárfestingaráætlun þá er íþróttamiðstöðin með þrjár milljónir á næsta ári. Það fer í þá þarfagreiningu sem við erum að fara af stað með sem er þá það að reyna að átta okkur á því hvað á og á ekki að vera í íþróttahúsinu. Hins vegar þá höfum við ekki fjármuni í að fara að hanna neitt fyrr en árið 2029 og þá ekki byrja að byggja fyrr en 2030, 2031 og 2032 ef við gefum okkur að engar aðrar fjárfestingar frestist.  Í umhverfis- og framkvæmdaráði og fjölskylduráði var tekið mjög jákvætt í erindið og ég held að mörgum finnist það mjög fýsilegt að líkamsræktarstöð byggi sjálft upp í tengslum við íþróttahúsið. Það sem er ólíkt okkar íþróttahúsi hér og flestum öðrum er að það eru sárafáir fermetrar í kringum það og lítið pláss. Á meðan ekki er búið að þarfagreina eða hanna þá er erfitt fyrir okkur að ákveða hvaða fermetrar munu nýtast í framtíðaruppbyggingu.“ 

Reiknað með útboði þegar að kemur

Jónína benti á að óskir forsvarsmanna Austur væru að hefja hönnun nýrrar líkamsræktarstöðvar strax í vetur og byrja framkvæmdir árið 2027 því núverandi húsnæði þeirra væru löngu sprungið. Sá tímarammi stemmir engan veginn við fyrirliggjandi áætlanir sveitarfélagsins.

„,Í ljósi þess sem erindið [Austur] fer fram á þá fara þessar tímalínur alls ekki saman. Það er að segja sá tími sem það tekur okkur að þarfagreina og hanna og hvort það myndi þá henta hvort einhver líkamsræktarstöð myndi byggja þar við er fasi sem kemur í kjölfarið á þeirri vinnu. Ég reikna líka með að við myndum bjóða þann rekstur út því hugsanlega yrðu það fleiri aðilar sem mundu vilja taka þátt í því. Þannig að hugmyndin að líkamsrækt sé þarna við hlið held ég að sé almennt góð en við erum bara ekki komin á þann stað í dag.“ 

Jónína benti aukinheldur á í máli sínu að búningsklefaaðstaða íþróttamiðstöðvarinnar gæti aldrei tekið við 500 manns í viðbót við fjöldann sem notar klefana í dag.

„Eins og þið vitið var aldrei byggður sá hluti hússins þar sem búningsklefar fyrir sundlaugina áttu að vera þannig að við erum nú þegar sprungin á búningsklefum. Við erum með þurrklefa fyrir íþróttahúsið sem einnig eru notaðir af sundlaugargestum. Sú aðstaða er löngu sprungin. Aðstaðan býður bara ekki upp á að geta tekið við 500 manns til viðbótar. Ef að forsvarsmenn Austur vilja doka eftir því að við ljúkum þarfagreiningu og hönnun þá er það sjálfsagt og eðlilegt. Við viljum gjarnan að hér sé líkamsræktarstöð og þar gangi vel og við slíkt viljum við styðja.“

Enn er verið að leita annarra lausna vegna bráðs húsnæðisvanda Austur af hálfu Múlaþings að því fram kom í máli Jónínu.