Virkjun í Gilsá í Eiðaþinghá hefði veruleg áhrif á vatnafar og vatnalíf
Áhrif á vatnafar milli stíflu og stöðvarhúss fyrirhugaðrar Gilsárvirkjunar í Eiðaþinghá verða óhjákvæmilega mjög eða talsvert neikvæð hvort sem framkvæmdaaðili velur framkvæmdakost A eða B. Þá er og ljóst að áhrif virkjunarinnar á landslag og ásýnd verði talsvert neikvæð.
Þetta eru meginatriði álits Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats Gilsárvirkjunar í Eiðaþinghá sem Orkusalan vill reisa í framtíðinni en álit stofnunarinnar var opinberað í síðustu viku.
Virkjunaráformin, sem tilkynnt var um haustið 2023, gera ráð fyrir allstórri vatnsaflsvirkjun ofarlega í Gilsánni en sú skal vera 6,7 megawött af afli. Virkjunin yrði meðal þeirra hærri í landinu því gert er ráð fyrir að fallhæð hennar nái 277 metrum á hæsta punkti og vatnasvið virkjunnarinnar verður um 48 ferkílómetrar alls.
Orkusalan lagði fram umhverfismatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar í mars síðastliðnum sem Skipulagsstofnun hefur rýnt í kjölfarið auk þess að taka tillit til umsagna og athugasemda alls þrettán aðila. Þar annars vegar umsagnir ellefu opinberra aðila og tveggja einkaaðila.
Eftir þá skoðun telur Skipulagsstofnun ljóst að áhrif þessarar virkjunar verði allveruleg á vatnafar, vatnalíf og vatnshlot Gilsárinnar hvaða leið sem svo sé valin á endanum.
„Um er að ræða verulegt inngrip inn í vatnafar á áhrifasvæði virkjunarinnar með tilheyrandi áhrifum á vatnalíf. Ávallt mun verða skert rennsli á milli stíflu og stöðvarhúss á meðan virkjunin er í rekstri en skerðingin verður mest næst stíflu en síðsumars á þurrum sumrum og mestallan veturinn verður farvegurinn nær þurr þar en eftir því sem neðar dregur í átt að stöðvarhúsi mun vatn renna í farveginn úr lækjum og hliðarám. Slíkar aðstæður koma til með að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífríki í ánni á þessum kafla en skv. framlögðum gögnum er þessi hluti árinnar ekki fiskgengur og áin þar næringaefnasnauð og með lága frumframleiðni sem endurspeglast í litlum fjölbreytileika hryggleysingja. Skipulagsstofnun telur í ljósi ofangreinds að áhrif á vatnafar milli stíflu og stöðvarhúss verði óhjákvæmilega verulega neikvæð í ljósi þeirrar gífurlegu röskunar sem verður á ánni og að áhrif á vatnalífríki á þessum kafla verði talsvert neikvæð og þá einkum næst stíflu. Stofnunin telur að valkostur B hafi einnig verulega neikvæð áhrif á vatnafar á tæplega 3 km kafla Gilsár milli stíflu og Ytri-Lambadalsár en hann er þó skárri en aðalvalkostur þar sem heldur meira rennsli verður í farvegi Gilsár neðan Ytri-Lambadalsár. Ljóst er að þær breytingar sem verða á vatnafari og lífríki Gilsár milli stíflu og stöðvarhúss kunna einnig að hafa áhrif á lífríki árinnar neðan stöðvarhúss þar sem eru búsvæði og hrygningarsvæði lax, urriða og bleikju.“