Afhenti ráðherra undirskriftalista um Fjarðagöng í forgang
Undirskriftalisti rúmlega 2100 einstaklinga sem skora á samgönguyfirvöld að setja Fjarðagöng í forgang í næstu samgönguáætlun var afhentur ráðherra fyrir helgina.
Það gerði Erlendur Magnús Jóhannsson sem hóf að safna undirskriftum til stuðnings Fjarðagöngum í stað Fjarðarheiðarganga þann 23. nóvember 2023 en listinn sem Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, tók á móti samanstóð af nöfnum 2.133 einstaklinga en það reyndar bæst við síðan þá og nú er heildarfjöldinn alls 2.314.
Erlendur fundaði með ráðherranum og kom þar á framfæri nauðsyn þess að það verði Fjarðagöng sem næst verði í röðinni í jarðgangnagerð á Austurlandi en Fjarðagöng samanstanda af tvennum göngum um Mjóafjörð. Annars vegar 5,5 kílómetra kafla frá Seyðisfirði og hins vegar 6,8 kílómetra yfir í Norðfjörð.
„Fundurinn gekk mjög vel og ráðherrann tók vel á móti okkur. Hann gaf svo sem ekkert upp um hvað verði en þakkaði fyrir listann og sagði málin öll í skoðun. Hann sagðist vilja byrja á næstu göngum eigi síðar en 2027 en hvaða göng það verða skýrist síðar.“
Ráðherrann hyggst einmitt kynna fyrstu samgönguáætlun sitjandi ríkisstjórnar á allra næstu vikum en hann vakti reiði margra sem barist hafa fyrir Fjarðarheiðargöngum um áraraðir þegar hann kvaðst ekki bundinn af samgönguáætlun fyrri ríkisstjórnar þar sem göng undir Fjarðarheiðina hafa verið næst í röðinni um langa hríð.