Skip to main content
Munni Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin samkvæmt teikningum Vegagerðarinnar.

Sterk viðbrögð við áskorun um að hefja skuli vinnu við Fjarðarheiðargöng hið snarasta

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. nóv 2025 17:22Uppfært 17. nóv 2025 17:23

Yfir 2.400 einstaklingar hafa nú þegar skrifað undir áskorun til samgönguyfirvalda þess efnis að hafist verði handa við gerð Fjarðarheiðarganga hið fyrsta en þeirri undirskriftasöfnun var hleypt af stokkunum á fimmtudagskvöldið var.

Fyrr í dag fjallaði Austurfrétt um afhendingu undirskriftalista stuðningsmanna Fjarðaganga til innviðaráðherra í síðustu viku en rúmlega 2.300 einstaklingar hafa skrifað undir áskorun þess efnis að þau göng verði fyrst í röðinni austanlands þau tvö ár sem sú söfnun hefur staðið yfir. 

Fleiri undirskriftir á fjórum dögum

Það tók þannig aðeins fjóra daga að toppa þann fjölda í stuðningsyfirlýsingu við Fjarðarheiðargöngin sem Lárus Bjarnason, fyrrum Sýslumaður á Austurlandi, setti á netið á fimmtudagskvöldið var. Sú áskorun gengur út á að íslensk stjórnvöld standi við loforð sem gefin hafa verið árum saman um að Fjarðarheiðargöngin séu næstu jarðgöng sem farið verði í á landinu.

Áskorunin er svohljóðandi: „Undirritaðir skora á samgönguyfirvöld að vinna við jarðgöng milli Seyðisfjarðar og Héraðs verði með þeim hætti að farið verði á fullt í framkvæmdir nú þegar. Fjölmargar ályktanir og áköll hafa komið frá Seyðfirðingum um varanlegar samgöngubætur. Ekki verður lengur unað við þær hættulegu og óásættanlegu aðstæður sem eru í samgöngumálum Seyðisfjarðar. Undirritaðir treysta því að farið verði í útboð skv. fyrirliggjandi rannsóknum og ákvörðunum stjórnvalda.“

Stjórnvöld verða að standa við loforð

Aðspurður um tilurð þessarar nýju áskorunar á vefnum Ísland.is segir Lárus það hafa farið fyrir brjóstið frétt fjölmiðla í síðustu viku um afhendingu lista áskorenda sem vilja Fjarðagöng framyfir Fjarðarheiðargöngin þrátt fyrir að undirbúningsvinnu við þau síðarnefndu sé fyrir alllöngu lokið og þau göngin tilbúin til útboðs

„Þar var farið með þennan lista til ráðherra sem beinlínis gengur út á að setja sig á móti ákvörðunum Alþingis og stjórnvalda um að Fjarðarheiðargöngin séu næst í röðinni. Okkur hér finnst þetta veruleg árás og niðurrif gagnvart Seyðfirðingum. Við búum við verulega vetrareinangrun hér í firðinum auk náttúruógna og við þurfum að komast út úr því ástandi. Og það er dálítið lélegt af nágrönnum okkar að setja þetta svona upp.“

Skrýtin nálgun

Lárus tínir meðal annars til að Fjarðagöng séu ekki einföld í framkvæmd þó öðru sé gjarnan haldið fram.

„Tvenn styttri göng þýða til dæmis fjóra gangnamunna og heilmikla vegagerð í kringum það. Akstur okkar hér á Seyðisfirði til að komast eitthvað innan okkar sveitarfélags, til dæmis í flug eða njóta þjónustu Múlaþings myndi þýða keyrslu um Mjóafjörð sem er snjóþungur, berjast um á Fagradal að hluta til þess að komast á Egilsstaði. Þetta er skrýtin nálgun að okkar mati en auðvitað hafa allir rétt á að hafa sína skoðun á málunum.“

Lárus bendir líka á að búið sé að berjast fyrir Fjarðarheiðargöngum um þrjátíu ára skeið og sú framkvæmd áður verið sett aftar í röðina en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ekkert sé búið að rannsaka fýsileika Fjarðaganga.

„Mér finnst eins og það sé gjarnan meiri hiti í fólki á suðurfjörðunum vegna þessara mála. Mín tilfinning er að Seyðfirðingar og ekki síður Egilsstaðabúar hafi ekki eins miklar áhyggjur af þessu eins og þeir sem sunnar eru þó aðrir íbúar Múlaþings og nágrennis gætu sannarlega notið góðs af því að komast hér yfir til okkar varðandi höfnina og annað. Að því sögðu hefur fjöldi fólks úr Fjarðabyggð lýst stuðningi við Fjarðarheiðargöngin og ég veit af fólki sem hefur ruglast á þessum undirskriftasöfnunum nú þegar og sett stuðning við Fjarðagöngin þegar ætlunin var að styðja við áskorunina um Fjarðarheiðargöngin.“