Skip to main content
Ströng takmörk eru við eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi almennt en ekki hvað fiskeldið varðar. Mynd: Aðsend

Ósammála um tillögu um takmörkun eignarhalds erlendra aðila í fiskeldi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2025 09:38Uppfært 04. nóv 2025 13:04

Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur með fulltingi fjögurra samflokksmanna sinna lagt fram þingsályktunartillögu um að takmarka skuli eignarhald erlendra aðila í fiskeldi hérlendis við 25% eignarhlut. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og einn þingmanna Norðausturkjördæmis, Jens Garðar Helgason, geldur varhug við slíkum hugmyndum.

Mælt var fyrir tillögu þessari í síðasta mánuði en að henni standa auk Sigurðar Inga flokkssystkini hans Þórarinn Ingi Pétursson, Ingibjörg Isaksen, Halla Hrund Logadóttir og Stefán Vagn Stefánsson. Áður hafði annar hópur Framsóknarmanna lagt fram sambærilega tillögu árið 2022 sem náði ekki í gegn um þingið þrátt fyrir að flokkurinn hefði þá verið í ríkisstjórn sem ekki er raunin nú. 

Núverandi tillaga er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela atvinnuvegaráðherra að leggja fram frumvarp til laga sem takmarkar eignarhald erlendra aðila á fyrirtækjum sem hafa rekstrarleyfi til laxeldis í sjó við strendur Íslands þannig að það verði að hámarki 25%.“

Langtímahagsmunir í húfi

Hvað Austfirði varðar hefur það verið einn ásteytingarsteinninn gagnvart aðilum sem standa að lagareldi í fjórðungnum að þar sé eingöngu um erlenda aðila að ræða. Allur ágóði af eldinu, þegar svo ber við, fari því úr landi þó atvinnugreinin sjálf veiti vissulega mörgum á svæðinu atvinnu. Kemur það enda fram í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að hið sama eigi að gilda um eignarhluti í laxeldi og eignarhluti í öðrum sjávarútvegi þar sem slík takmörk hafa lengi verið til staðar. Erlendir fjárfestar geti haft allt aðrar forsendur í rekstri sínum en að gæta að langtímahagsmunum íslensks samfélags.

Eini þingmaðurinn sem hafði uppi andsvör þegar mælt var fyrir tillögunni var Jens Garðar Helgason, þriðji þingmaður Norðausturlands og núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Jens Garðar verið meðal forsvarsmanna fyrirtækja sem fiskeldi stunda undan ströndum Austurlands síðastliðin ár. Fyrst hjá fyrirtækinu Löxum en síðar hjá Ice Fish Farm og Kaldvík áður en hann settist á þing. 

Sömu leikreglur fyrir alla

Í samtali við Austurfrétt telur Jens Garðar rökrétt að hugsa slíkar hugmyndir til enda.

„Ef menn ætla að setja svona reglur þá er vart hægt að einskorða það við útlendinga heldur þyrfti að einskorða það við hámarks eignarhald hvers hluthafa hvort sem sá er erlendur aðili eða innlendur. Hugsanlega yrði hægt að gera það með því móti en ég held að það sé mjög erfitt að taka útlendinga sérstaklega út fyrir sviga því við erum hluti af EES-svæðinu með þeim reglum sem þar gilda. Ég velti líka fyrir mér hvaða skilaboð það væru til erlendra fjárfesta sem vilja fjárfesta hér í fyrirtækjum, rekstri eða uppbyggingu fyrir milljarða og milljarðatugi ef að stjórnvöld geta veifað hendi allt í einu og sagt að nú verður þú að selja svo Íslendingar geti eignast þetta.“

Jens Garðar segir eðlilegt að velta upp spurningum sem þessum því ef fyrirsjáanleiki í atvinnugreinum hérlendis sé ekki meiri en svo þá geti orðið erfitt að laða að erlenda fjárfesta til að leggja fé til starfsemi hérlendis í framtíðinni.

„Við höfum sannarlega notið góðs af slíku gegnum tíðina og við Austfirðingar þekkjum það vel til dæmis varðandi Alcoa þannig að það voru ýmsar vangaveltur sem vöknuðu við þessa tillögu Framsóknarmanna. Ég tel að ef við ætlum að setja svona reglur þá verði þær að gilda fyrir alla. Færeyingar settu svona reglur þar sem enginn má eiga yfir 10% ef ég fer rétt með. En þeir eru ekki í EES svo þeir eru með frírra spil en við. En hvort það ætti að takmarka eignarhald allra er bara umræða sem þarf að taka og hvort slíkt ætti þá að einskorðast við eina atvinnugrein eða fleiri. Það verða sömu leikreglur að gilda í þessu öllu.“