Skip to main content

Fjölmargir lagt hönd á plóg fyrir bágstadda fyrir hátíðina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. des 2023 12:21Uppfært 26. nóv 2024 15:47

Alls hafa 60 heimili nú þegar fengið úthlutað styrk úr jólasjóð Múlaþings en þeim sjóð ætlað að létta undir hjá öllum þeim heimilum sem glíma við bágindi fyrir jólahátíðina.

Fjöldinn er svipaður og fyrir síðustu jól að sögn Þorgeirs Arasonar, sóknarprests í Egilsstaðakirkju, en það er Þjóðkirkjan auk Rauða krossins, Lions-samtakanna og stéttarfélagsins Afls sem að sjóðnum standa. Hann segir töluvert um framlög frá öðrum aðilum og þar bæði um einstaklinga að ræða sem og samtök á borð við kvenfélögin á svæðinu. Hann segir ánægjulegt hvað margir láta fé af hendi rakna fyrir þá sem höllum fæti standa og tiltekur sérstaklega börnin í leikskólanum Hádegishöfða í Fellabæ sem eins og í fyrra útbjuggu jólakort og seldu og þannig runnu 40 þúsund krónum til sjóðsins nú.

Úthlutunin sjálf hefur verið í gangi frá því snemma í desember og því miður er þörfin alltaf til staðar. Öryrkjar og aðrir tekjulægstu hóparnir í þessu samfélagi hafa bara því miður mjög lítið svigrúm, matvöruverð hefur auðvitað hækkað mikið, það má ekkert koma upp á hjá fólki og jólahald kostar sitt þó að hóflegt sé, til dæmis á barnaheimilum.

Þorgeir segir þó bót í máli að svo virðist sem þörfin austanlands sé ekki jafn brýn og hún er annars staðar í landinu en hjálparsamtök víða hafa orðið vör við töluverða aukningu og jafnvel holskeflu fólks og fjölskyldna sem þurfa á fjárhagslegri aðstoð að halda.

Eins og staðan er núna þá er búið að úthluta til tæplega 60 heimila svo það stefnir í að fjöldinn verði svipaður og í fyrra. Það er ennþá hægt að sækja um og við hvetjum fólk sem hefur þörf á því að vera ófeimið við að sækja um, það er hægt að gera rafrænt, til dæmis er tengill á heimasíðu kirkjunnar egilsstadaprestakall.is og svo er líka hægt að hafa beint samband við Félagsþjónustu Múlaþings. Við erum svo lánsöm að hafa mörg undanfarin ár verið í góðu samstarfi við félagsþjónustuna og allar umsóknir fara í gegnum ráðgjafa þar til að tryggja að aðstoðin nýtist sem best. Svo reynum við líka að styrkja fólk utan jólatímans ef það stendur illa á hjá fólki, allt að tvisvar á ári fyrir utan desember ef staða sjóðsins leyfir. Ef fólk les þetta og vill taka þátt í að styrkja þá eru bankaupplýsingarnar 175-15-380606, kt. 530505-0570.