Viðar Örn: Var aldrei vandamál þegar við spiluðum með hausinn skrúfaðan á - Myndir

hottur_fsu_des12.jpg
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari körfuknattleiksliðs Hattar, segir lið sitt helst skorta stöðugleika og skynsemi. Liðið lenti í töluverðum vandræðum gegn FSu á fimmtudagskvöld en hafði sigur fyrir rest 108-93.

Höttur var með örugga forustu framan af og var 51-38 yfir í hálfleik. Villuvandræði í þriðja og fjórða leikhluta, einkum meðal stóru mannanna ollu vandræðum. Frisco Sandidge spilaði til dæmis lítið í þriðja leikhluta og fór út af fljótlega í þeim fjórða með sína fimmtu villu.

Auk hans voru Frosti Sigurðsson, Kristinn Harðarson og Andrés Kristleifsson allir í villuvandræðum og reyndar fór svo að Frosti fékk sína fimmtu villu í blálokin. Ekki hjálpaði heldur til að Benedikt Guðgeirsson Hjarðar, miðherji, fór út af meiddur.

„Það var dæmd á hann villa þegar tennurnar voru kýldar úr honum. Tannlæknarnir hérna negldu tönnunum upp í hann og hann hefði verið tiltækur síðustu mínúturnar ef þess hefði þurft,“ sagði Viðar Örn um meiðsli Benedikts.

Minnstur varð munurinn eftir fjórar mínútur í síðasta leikfjórðungi, 84-79. Lið Fjölbrautarskóla Suðurlands hafði orðið fyrir sínum áföllum, Ari Gylfason, besti maður liðsins í fyrri hálfleik, varð óleikfær í upphafi þriðja leikhluta þegar hann skall í gólfið og lenti illa á öxlinni. Tveir leikmenn liðsins fóru að auki út af með fimm villur.

Liðið virtist samt líklegt til að saxa enn frekar á forskot Hattar þegar Egilsstaðaliðið tók leikhlé í fjórða leikhluta. Eftir það kom allt annað lið inn á, mun meiri ákefð var í liðinu sem að lokum innbyrtu fimmtán stiga sigur.

„Við skiptum yfir í svæðisvörn, vorum grimmari í fráköstunum og almennt skynsamari í okkar leik. Þetta var aldrei vandamál þegar við lékum með hausinn skrúfaðan á en okkur skortir stöðugleika. Þegar við spilum 40 mínútur með hausinn á réttum stað vinnum við alla.“

Viðar fór fyrir sínu liði með mikilvægum körfum og varð að lokum stigahæstur ásamt Austin Bracey með 28 stig. Frisco skoraði 22 stig, tók tíu fráköst og sendi 10 stoðsendingar áður en hann fór út af.

„Dómararnir leyfðu lítið í dag. Við ákváðum að spila fast. FSu liðið er byggt upp á skólastrákum sem þola illa mótlætið. Niðurstaðan varð sú að við fengum örugglega jafn margar villur og í hinum leikjunum í haust samanlagt en þetta gekk upp því þeir hittu illa af vítalínunni,“ sagði Viðar.

Daði Berg Grétarsson var stigahæstur hjá FSu með 31 stig og Matthew Bunnell skoraði 28. Höttur leikur næst gegn Haukum 11. janúar í Hafnarfirði.
 
hottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpghottur_fsu_des12.jpg
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.