Körfubolti: Höttur í seilingarfjarlægð frá Val þar til í lokin

Deildarmeistarar Vals eru aftur komnir með yfirhöndina í viðureignum liðsins við Hött í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir 94-74 sigur í þriðja leik liðanna á Hlíðarenda í gærkvöldi. Höttur var í miklum villuvandræðum í leiknum en var alltaf í seilingarfjarlægð þar til í síðasta leikhluta.

Villuvandræðin byrjuðu strax í fyrsta leikhluta. Miðherjinn Nemanja Knezevic fékk fljótt tvær villur auk þess sem Valur var kominn í skotrétt þegar Hattarliðið hafði fengið á sig fimm villur um miðjan leikhlutann.

Í kjölfar þess að Knezevic settist á bekkinn breytti Valur stöðunni úr 10-8 í 18-8. Það var hins vegar Matej Karlovic sem kveikti baráttuna í Hetti á ný þegar hann, á stuttum tíma, fékk dæmdar þrjár villur á Valsmenn sem á móti komu Hetti líka í skotrétt. Aðrir leikmenn fylgdu á eftir og fyrir fyrsta leikhluta var staðan komin niður í 20-17.

Svarað eftir brottvísun


Höttur komst meira að segja yfir snemma í öðrum leikhluta, 24-25. Stærsta atvik leiksins átti sér stað skömmu síðar. Í stöðunni 29-28 lenti þeim David Ramos, frá Hetti og Valsmanninum Frank Booker saman undir körfunni. Booker sló til Ramos sem féll í gólfið en sparkaði á móti í klof Bookers.

Ramos fékk fyrir það brottvísun og á yfir höfði sér leikbann í næsta leik. Staðan var þá 29-28 en Valsmenn skoruðu sex stig í röð. Höttur tók leikhlé og svaraði með átta stigum í röð og komst yfir 38-40. Valur skoraði náði þó að fara inn í leikhlé með eins stigs forskot, 43-42.

Villuvandræði ágerast


Það var rétt síðustu tvær mínúturnar í þriðja leikfjórðungi sem Valur fór að byggja upp forskot sem skipti máli og var að honum loknum 65-58 yfir. Síðasta karfa liðsins í fjórðungnum er með þeim furðulegri sem sést hafa. Ástþór Valason átti lélegt skot í hönd Gustavs Surh-Jessens þaðan sem boltinn skrúfaðist í háan boga upp á körfuhringinn og þaðan ofan í.

Forskot Vals jókst jafnt og þétt út fjórða leikhluta. Það sást að farið var að draga af Hattarmönnum. David er varamaður Kezevic og sá þreyttist af slagnum við öfluga leikmenn Vals, á borð við Kristófer Acox undir körfunni. Til viðbótar var Knezevic í villuvandræðum og hann fékk sína fimmtu villi þremur mínútum fyrir leikslok. Einni og hálfri mínútu fyrr hafði Gustav fengið sína fimmtu. Að auki var Deontay Buskey kominn með fjórar. Hinu megin fékk Frank Booker fimm villur, þannig að alls fóru fjórir leikmenn af velli í gær vegna brota.

Fundu ekki svör við vörn Vals


Buskey var stigahæstur hjá Hetti með 25 stig, Trotter skoraði 17 og Knezevic 10. Hann tók að auki 10 fráköst. Hann hitti þó illa, sérstaklega undir lokin sem átti svo sem við Hattarliðið í heild. Skotnýting þess úr teignum var 33% og heilt yfir má segja að liðið hafi í gær aldrei fengið auðveldar körfur, enda Valsvörnin trúlega sú besta í deildinni.

„Frammistaða Hattar var á löngum köflum góð. Við gefum aðeins í lokin en meðan munurinn er um tíu stig þá þarf lítið upp á að við hristum upp í honum. Því miður missum við aðeins sjónar á því sem við vorum að gera en Valur er gott varnarlið og við áttum erfitt með að finna leiðir gegn því seint í leiknum.“

Villuvandræði Hattar hjálpuðu ekki til. „Það hefur sitt að segja þegar lykilleikmenn eru í vandræðum en Valur missti líka mann út af. Mér fannst dómararnir flauta mikið framan af en gefa eftir undir lokin eins og við. Þeir bognuðu undan tuði í landsliðsmönnum Vals. Það verður jafnt yfir alla að ganga.“

Höttur þarf sigur á mánudag


Um helmingur stúkunnar á Hlíðarenda í gærkvöldi var skipaður stuðningsfólki Hattar. Hlutföllin verða væntanlega Hetti enn hagstæðari þegar liðin mætast á Egilsstöðum klukkan sjö á mánudagskvöld en hátt í 800 manns mættu á fyrri leik liðanna þar á sunnudag.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í undanúrslit og því þarf Höttur að vinna til að knýja fram oddaleik. „Við erum mjög þakklátir fyrir stuðninginn og finnst leitt að geta ekki farið heim í dauðafæri. Það er okkar að halda áfram og fá fólkið með okkur. Við ætlum okkur að koma aftur hingað.“

Brottfluttir og fleiri mættu til að styðja Hött. Stuðningsfólk Hattar er vinstra megin í stúkunni í myndinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.