Körfubolti: Búist við 800 manns á leik Hattar og Vals

Smíðaðar verða sérstakar stúkur í íþróttahúsið á Egilsstöðum til að koma öllum áhugasömum áhorfendum fyrir á leik Hattar og Vals í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Dagskrá fyrir stuðningsfólk hefst utan við húsið þremur tímum fyrir leik.

Þetta er annar leikur liðanna í átta liða úrslitum en Valur vann fyrri leikinn á Hlíðarenda á miðvikudag. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í undanúrslitin.

Þetta er í fyrsta sinn sem Höttur kemst í úrslitakeppnina og er því mikið lagt í leikinn. „Við finnum mikinn áhuga í samfélaginu og erum að búa til stemmingu þannig sem flestir kynnist körfuboltanum og hvað hann er skemmtilegur,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, úr stjórn körfuknattleiksdeildar Hattar.

Leikurinn sjálfur hefst klukkan 19:00 en frá klukkan 16:00 verður dagskrá í tjaldi sem búið verður að koma upp fyrir utan húsið. Þar verður seldur matur og drykkur auk sérstaks úrslitakeppnisbol sem er sérstaklega framleiddur fyrir keppnina. Lifandi tónlist verður frá 17:00. Salurinn sjálfur opnar fyrir áhorfendur klukkan 17:45.

Aldrei selt fleiri miða á heimaleik


Von er á áhorfendafjölda sem sjaldan hefur sést á austfirskum íþróttaviðburðum. „Við eigum von á 800 áhorfendum. Við munum smíða stúkur sitt hvoru megin við völlinn til að koma þeim fyrir. Við höfum aldrei selt fleiri miða á heimaleik. Það eru enn til miðar en það er betra að huga að því að kaupa þá fyrr en síðar,“ segir Sigríður.

Höttur tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með sigri á Tindastóli á skírdag. Sigríður segir það hafa verið fjölsóttasti heimaleikur Hattar frá því liðið vann úrslitaleik um sæti í úrvalsdeildinni fyrst vorið 2005. Leikurinn nú verði enn stærri.

Öll miðasala fer fram í gegnum forritið Stubb. Ekki er hægt að kaupa miða við hurð, eins og vanalega á heimaleikjum. Hins vegar verður aðstoð veitt í tjaldinu fyrir leik fyrir þau sem lenda í vandræðum með forritið, auk þess sem hægt er að hafa samband við forsvarsfólk körfuknattleiksdeildarinnar.

Allt stærra en á deildarleik


Sigríður segir fjölmarga einstaklinga leggja sitt af mörkum til að allt gangi upp á sunnudag. „Við erum með fjölda sjálfboðaliða sem leggja okkur lið og síðan erum við mjög þakklát sveitarfélaginu Múlaþingi sem hefur lagt sig fram um að leysa allt sem þarf.“

Hún minnir líka áhorfendur á að töluvert strangari kröfur eru gerðar til alls í kringum úrslitakeppnina heldur á venjulegum deildarleikjum. „Það er aukin gæsla í kringum leikinn. Það er mikilvægt að börn séu í fylgd með forráðafólki. Við ætlum að hafa gaman en vera til fyrirmyndar. Við berum virðingu fyrir andstæðingum, starfsfólki leiksins og dómurum. Við erum í úrslitakeppni í fyrsta sinn og erum að læra en setjum samt markið hátt og ætlum alla leið.“

Mynd: Daníel Cekic

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.