Fótbolti: Mjög ánægður með frammistöðuna gegn úrvalsdeildarliðinu

Brynjar Árnason, þjálfari 2. deildarliðs Hattar/Hugins, segist hafa verið ánægður með frammistöðu liðsins þrátt fyrir 0-1 tap gegn úrvalsdeildarliði Fylkis í 32ja liða úrslitum bikarkeppnin karla í knattspyrnu á Fellavelli í gær.

Eina mark leiksins kom um miðjan seinni hálfleik. „Mér fannst þetta mjög góður leikur af okkar hálfu. Í fyrri hálfleik vörðumst við vel, fengum nær engin færi á okkur, áttum fína spilkafla og jafn líklegir og þeir til að skora. Fram að marki þeirra fannst mér leikurinn jafn. Undir blá lokin dró síðan af okkur.

Það var gott að geta mátað okkur við þetta sterkt lið. Við vissum að Fylkisliðið væri skipað ungum og ekki endilega reynslumiklum leikmönnum þannig við töldum okkur eiga möguleika.

Mér fannst gaman að sjá okkur spila okkar, leik, að fara ekki í langar sendingar heldur spila frá markmanni eða vörninni og fram. Við virtumst líka í það góðu standi að þeir keyrðu aldrei yfir okkur,“ segir Brynjar um leikinn.

Landsliðsmaður frá Saó Tóme og Prinsípe


Vika er í að deildin fari af stað. Á miðvikudagskvöld var lokað fyrir félagaskipti. Þrír leikmenn komu til Hattar rétt áður en fresturinn rann út. Tveir leikmenn komu frá Portúgal og komu þeir báðir inn á í leiknum í gær, þótt stutt væri.

Martim Cardoso er 22ja ára framherji sem fenginn var til Hattar/Hugins eftir að annar sóknarmaður sem samið hafði verið við meiddist. Þá kom einnig 27 ára kantmaður, Edmilson Viegas. Sá á að baki landsleiki með Saó Tóme og Prinsípe, 200.000 manna eyríki á Gíneuflóa, sem er númer 188 á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Þá skipti Hjörvar Sigurgeirsson aftur fyrir í Hött/Huginn en hann var hjá liðinu fyrir tveimur árum. Brynjar segir Hjörvari ætlað að vera til taks ef meiðsli herja á þegar líður á sumarið en annars sé ekki reiknað með að hann verði mikið með.

Ungir heimamenn sem fá stærra hlutverk


Áður hafði Höttur fengið tvo spænska leikmenn, miðvörðinn Genis og miðjumanninn Rafael, sem þrátt fyrir að bera báðir eftirnafnið Cabelle eru ekki bræður. Brynjar segir þá báða hafa komið vel út á undirbúningstímabilinu og nefnir sérstaklega að Genis sé öðruvísi miðvörður en Höttur hafi haft, fljótur og góður með bolta.

„Það hafa orðið töluverðar breytingar á liðinu. Eiginlega enginn þeirra erlendu leikmanna sem voru með okkur í fyrra eru með núna auk þess sem nokkrir af okkar strákum, svo sem Brynjar Þorri (Magnússon) og Eiður (Orri Ragnarsson) eru farnir annað. Við erum ánægðir með okkar kjarna af heimamönnum. Við höfum séð nokkra unga leikmenn stíga upp í vetur og einhverjir þeirra munu spila stórt hlutverk í sumar.“

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.