Valdir í unglingalandsliðin í knattspyrnu

Daníel Michal Grzegorzsson frá Reyðarfirði hefur verið valinn í U-15 ára landslið Íslands í knattspyrnu. Þorlákur Breki Baxter, fyrrum leikmaður Hattar/Hugins, var nýverið í U-19 ára landsliðinu.

Tilkynnt var um valið á U-15 ára landsliðinu í byrjun vikunnar. Það tekur þátt í móti í Póllandi fyrstu vikuna í október og leikur þar gegn Póllandi, Spáni og Wales.

Daníel Michal er fæddur árið 2009 og skráður í Val Reyðarfirði. Hann spilaði í vor tvo leiki með KFA í Lengjubikarnum.

Í viðtali á heimasíðu Grunnskólans á Reyðarfirði segir hann að valið í landsliðið hafi lengi verið draumur hans. Hann hafi æft fótbolta síðan í leikskóla og til að ná árangri þurfi að hafa hausinn í lagi, hafa stjórn á skapi sínu, sýna bæði þjálfurum, samherjum og mótherjum kurteisi og huga að heilsunni með borða vel og sofa nóg.

Þorlákur Breki til Lecce


Þá var annar ungur Austfirðingur, Þorlákur Breki Baxter í U-19 ára landsliðinu sem spilaði á æfingamóti í Slóveníu fyrr í mánuðinum.

Þorlákur Breki er fæddur árið 2005 og æfði með Hetti í yngri flokkum. Hann skoraði 4 mörk í 17 leikjum fyrir Hött/Huginn sumarið 2020. Eftir það skipti hann í Selfoss og var þar fastamaður í liðinu í næst efstu deild í sumar.

Um síðustu mánaðamót var hann keyptur til ítalska félagsins Lecce. Liðið spilar þar í efstu deild en Þorlákur er í U-19 ára liði félagsins. Fyrsti leikur þess eftir komu hans var gegn Juventus þar sem Þorlákur var á bekknum.

Hann fékk síðan sitt fyrsta tækifæri með liðinu um síðustu helgi þegar hann spilaði klukkutíma í 2-2 jafntefli við Sampdoria.

Daníel Michal Grzegorzsson. Mynd: Grunnskóli Reyðarfjarðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.