Þurfa 90 sjálfboðaliða í frjálsíþróttirnar

Seyðisfjarðarvegi verður lokað að hluta um verslunarmannahelgina og verður strætisvagn gerður út til að draga úr umferðarþunga á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina þar sem Unglingalandsmót UMFÍ fer fram. Unnið er að því að þétta raðirnar í hópi sjálfboðaliða.

Gert er ráð fyrir á annað þúsund keppendum á aldrinum 11-18 ára á mótið og allt að 10.000 mótsgestum. Hugsanlegt er að mannfjöldinn raski daglegu lífi Héraðsbúa.

Íbúafundur var haldinn vegna mótsins á Egilsstöðum á miðvikudag. Þar hvatti Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, bæjarbúa til að taka vel á móti gestunum. Í næstu viku verður utanumhald mótsins kynnt með dreifibréfi á Egilsstöðum. „Við fáum marga gesti af öllu landinu og mikla umfjöllun þannig að ásýnd og viðmót skipta máli,“ sagði Björn.

Seyðisfjarðarveginum verður aðeins lokað að hluta á sunnudeginum um verslunarmannahelgina vegna keppni í götuhjólreiðum sem fram fer á Unglingalandsmótinu. Jafnframt því verður leitað eftir því að draga úr umferð með því að bjóða upp á strætóferðir frá tjaldsvæði mótsgesta til helstu keppnissvæða. Götunni Skógarlöndum verður lokað við Valaskjálf yfir helgina.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ, hefur fundað með sérgreinarstjórum þeirra rúmlega 20 greina sem í boði verða á mótinu sem og forsvarsmönnum sveitarfélagsins. Hann var sáttur eftir fundina og sagði alla verkþætti á áætlun.

Erla Gunnlaugsdóttir, starfmaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) sagði á fundinum engan sjálfboðaliða eiga að vinna í tíu tíma á Unglingalandsmóti UMFÍ. Leitað verði eftir því að hafa þá sem flesta.

„Við þurfum 90 sjálfboðaliða í frjálsíþróttirnar. Það eru margvísleg verkefni í boði við mótið,“ segir Erla. Hún benti á að UÍA leggja sitt af mörkum til að aðstoða sérgreinarstjóra að finna sjálfboðaliða svo enginn vinni of mikið á meðan því stendur.

Hún sagði UÍA vera að undirbúa sitt lið. Meðal annars hafi sambandið ákveðið að niðurgreiða keppnisgjöld sinna félagsmanna til að hvetja Austfirðinga til þátttöku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.