Þróttur kominn í úrslit: Við sáum strax í haust að þetta lið gæti náð langt

blak_throttur_deildarmeistari_jg.jpg
Kvennalið Þróttar Neskaupstað er komið í úrslit Íslandsmeistaramótsins í blaki eftir að hafa lagt Stjörnuna í undanúrslitum. Þjálfari liðsins segist hafa séð strax í haust að mikið byggi í liðinu en það sé nú að toppa á réttum tíma. Karlaliðið er hins vegar úr leik eftir tvö töp gegn HK.

„Stjörnuleikirnir gengu almennt mjög vel og var spilið á köflum mjög gott. Ennþá koma þó kaflar þar sem við dettum aðeins niður en það er mikilvægt að halda einbeitingunni allan tímann,“ segir þjálfarinn Matthías Haraldsson.

Þróttur tók á móti deildarmeistaratitlinum á heimavelli um síðustu helgi en liðið fór í gegnum deildina án þess að tapa leik. Liðið mætti síðan Stjörnunni í undanúrslitum, vann fyrri leikinn í Neskaupstað á mánudag 3-1 og innsiglaði síðan sætið í úrslitunum í gærkvöldi með öðrum 1-3 sigri.

Þorði ekki að vonast eftir taplausum vetri

Matthías er eðlilega ánægður með veturinn. „Við sáum fljótt eftir tvo örugga sigra á HK og Aftureldingu í fyrstu umferðunum í haust að þetta lið gæti náð langt í vetur. Það mátti þó ekkert misstíga sig þar sem bæði HK og Afturelding voru nálægt okkur að stigum allan tímann. En að fara í gegnum deildina án þess að tapa leik er nú ekki eitthvað sem ég þorði að vona í ágúst.

Liðið toppaði í janúar og svo erum við að stefna á að toppa aftur núna - það var frekar langur kafli án krefjandi leikja og hefur tekið aðeins á að ná sömu gæðum í leik liðsins aftur, en þetta er að smella núna. 

Liðið small ótrúlega vel saman frá fyrstu æfingu og fyrsta leik. Helstu framfarirnar tel ég þó vera aukin samskipti og leikskilningur leikmanna á milli inná vellinum ásamt auðvita hellings framför í sóknar og varnarleiknum frá A-Ö.“

Áhorfendur í Neskaupstað sjöundi maðurinn

Úrslitakeppnin hefst strax eftir páska. Þróttur mætir þar annað hvort HK eða Afturelding sem leika oddaleik í Mosfellsbæ um helgina. Þróttur á samt heimaleikjaréttinn.

„Áhorfendurnir okkar í Neskaupstað eru sjöundi leikmaðurinn á vellinum. Við hlökkum til að bjóða uppá spennandi og vel spilaða leiki í úrslitunum sem hefjast strax eftir páska og vonumst auðvita til að sjá fólk fjölmenna af öllu Austurlandi og hvetja liðið til sigurs.“

Fyrst bikarúrslit 
 
Áður en að úrslitunum kemur leikur Þróttur í úrslitakeppni bikarsins sem fram fer í Laugardalshöll eftir rúma viku. Þróttur mætir þar Aftureldingu í undanúrslitum en HK og Stjarnan eigast við í hinni viðureigninni.

„Við munum fara inní þann leik eins og alla aðra leiki á tímabilinu, með trúna og viljann á sigur að vopni. HK, Afturelding og Stjarnan hafa öll bætt sig verulega á tímabilinu og ef við ætlum okkur fleiri titla þarf að hafa fyrir því. Við höfum fulla trú á því að við getum unnið bikarinn um næstu helgi.“

Karlalið Þróttar er hins vegar úr leik eftir að hafa tapað tvisvar 0-3 gegn HK. Seinni leikurinn var leikinn í Neskaupstað í kvöld.

Lið Þróttar fagnar deildarmeistaratitlinum um síðustu helgi. Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.