Körfubolti: Hugsum stórt þegar komið er í úrslitakeppnina

Höttur leikur í kvöld sinn fyrsta leik í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik þegar liðið mætir Val á Hlíðarenda. Þetta er í fyrsta sinn sem Höttur kemst í úrslitakeppnina en þangað hefur liðið stefnt lengi.

„Það er mjög ljúft að vera loks komnir í úrslitakeppnina. Það er eitt þeirra markmiða sem félagið hefur sett sér og unnið að í mörg ár.

Nú er það næsta markmið, sem er að vinna einvígi. Þótt við höfum ekki farið með það af stað sem yfirmarkmið fyrir tímabilið að vinna Íslandsmeistaratitilinn þá hugsum við stórt þegar í úrslitakeppnina er komið. Höttur stefnir á Íslandsmeistaratitilinn ásamt sjö öðrum liðum.“

Þetta segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar. Höttur komst fyrst upp í úrvalsdeildina árið 2005 en féll strax vorið eftir. Liðið fór aftur upp árin 2015, 2017 og 2020 en í öll skiptin niður aftur. Í fimmtu atrennu, eftir að hafa komist upp 2022, tókst liðinu að halda sér í deildinni í fyrra og nú að komast í úrslitakeppnina.

„Að við komumst í úrslitakeppnina þýðir að við erum að verða öflugra körfuboltalið og félag. Að Höttur verði stöðugra nafn í íslenskum körfubolta er mikil og góð auglýsing fyrir starfið okkar, sem og fyrir Egilsstaði og Múlaþing.“

Öflugir mótherjar


Mótherjarnir í Val hafa átt eitt öflugasta lið landsins síðustu ár. Það varð Íslandsmeistari 2022, bikar- og deildarmeistari í fyrra auk þess að spila þá til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Liðið er nýkrýndur deildarmeistari.

„Við tökum því sem að höndum ber. Valsliðið er gríðarlega vel mannað með íslenska landsliðsmenn og sterka erlenda leikmenn. Við þurfum að eiga okkar allra besta dag til að vinna. Valsliðið hefur reynsluá þessu sviði meðan við erum spenntir. Vonandi springur sú eftirvænting út í hálfgerði geðveiki sem við náum að dansa með.“

Allir leikmenn Hattar eru leikfærir í kvöld. Valur er án Bandaríkjamannsins Joshua Jefferson sem sleit krossband í hné í febrúar. Viðar Örn segir fjarveru hans ekki skipta máli í einvíginu. „Valsliðið hefur haft tvo mánuði til að leysa úr því og náði í mann til að dekka þá stöðu að hluta. Valur er eftir sem áður deildarmeistari og eitt af þeim 2-3 liðum sem eru líklegust til að verða Íslandsmeistarar. Það er í okkar verkahring að hrista upp í því.“

Margir miðar seldir á næsta leik


Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki í viðureignum liðanna í átta liða úrslitum kemst í undanúrslit. Annar leikur liðanna verður á Egilsstöðum á sunnudagskvöld. Miðað við miðasöluna er mikill áhugi á þeim leik. „Vonandi verður húsið troðfullt og allir sem vilja fái miða. Það er ekki öruggt miðað við hversu langt er í leikinn og að þegar er búið að selja nokkur hundruð miða. Það hefur aldrei orðið uppselt en það sem aldrei hefur gerst getur gerst – og það sama á við um Íslandsmeistaratitilinn.“

Mynd: Daníel Þór Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.