Knattspyrna: KFA komið í efsta sætið

Knattspyrnufélag Austfjarða er eftir leiki helgarinnar eina taplausa liðið í efri deildum Íslandsmótsins í knattspyrnu og að auki komið í efsta sæti 2. deildar karla. Kvennalið Einherja vann sinn fjórða leik í röð í annarri deild kvenna.

KFA vann á laugardag KV í Reykjavík 0-4. Esteban Selpa skoraði eina mark fyrri hálfleiks en í þeim seinni skoruðu þeir William Suárez, Vice Kendes og Inigo Albizuri.

KFA og RB, sem spilar í 5. deild, eru eftir helgina einu taplausu liðin í Íslandsmótinu í knattspyrnu. KFA er búið með 14 leiki, einum meira en RB. KFA vann ekki útileik í fyrri umferð mótsins en hefur núna unnið tvo í röð, gegn liðunum í fallsætunum.

Úrslit í öðrum leikjum helgarinnar þýddu að KFA komst loks í efsta sætið, er með 28 stig eða tveimur meira en Dalvík/Reynir og Víkingur Ólafsvík sem áttu skrautlega leiki. Dalvík/Reynir fékk á sig jöfnunarmark gegn Haukum á heimavelli en liðið hafði unnið sex leiki í röð. Dragan Stojanovic, fyrrum þjálfari Fjarðabyggðar, stýrir nú Dalvík/Reyni.

Víkingur Ólafsvík tapaði 1-0 fyrir Völsungi. Skrautlegasta atvik helgarinnar varð trúlega þar þegar Víkingur jafnaði með langskoti þegar leikmaður þeirra skaut viðstöðulaust eftir að boltinn barst út úr teignum. Af upptökum er þó ljóst að um leið og boltinn er skallaður út flautar dómarinn til leiksloka og markið taldi því ekki.

Ein umferð er eftir í mótinu fyrir tíu daga frí í kringum verslunarmannahelgina. Áður en að því kemur er framundan toppslagur KFA og Dalvíkur/Reynis í Fjarðabyggðarhöllinni á fimmtudagskvöld.

Árni Veigar skiptir í KA


Höttur/Huginn vann sinn annan leik í röð þegar liðið lagði KFG á Egilsstöðum á laugardag. Bjarki Fannar Helgason og Eiður Orri Ragnarsson komu Hetti/Huginn í 2-0 áður en gestirnir minnkuðu muninn rétt fyrir leikhlé. Matheus Bettio skoraði síðan tvö mörk í seinni hálfleik. Höttur/Huginn er í 7. sæti deildarinnar með 20 stig.

Af félaginu er annars það að frétta að um helgina samdi Árni Veigar Árnason við úrvalsdeildarlið KA. Árni Veigar er 16 ára og á að baki þrjá leiki með U-16 árs liðinu.

Í fimmtu deild karla tapaði Spyrnir 1-2 fyrir Berserkjum/Mídasi. Leikurinn fór fjörlega af stað, gestirnir komust yfir á 3. mínútu, Ármann Davíðsson jafnaði á 16. mínútu en gestirnir komust aftur með marki úr víti á 16. mínútu. Eftir það var ekki skorað meira. Spyrnir er í 5. sæti B-riðils með 19 stig.

Stórsigur Einherja


Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL fyrir HK á útivelli 3-1. HK var yfir 2-0 í hálfleik og bætti við þriðja markinu snemma í seinni hálfleik en Sofia Lewis minnkaði muninn þegar um kortér var eftir. FHL er í 7. sæti með 13 stig.

Í annarri deild vann Einherji sinn fjórða leik í röð þegar liðið vann Smára í gær 6-0. Viktoria Szeles, Karólína Dröfn Jónsdóttir og Claudia Maria Daga Merino skoruðu tvö mörk hver. Einherji er í 8. sæti með 21 stig úr 13 leikjum.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.