Knattspyrna: Annar ósigur KFA í röð

Eftir fimmtán leiki í röð án ósigurs hefur KFA tapað tveimur leikjum í röð. Liðið féll úr toppsæti annarrar deildar karla þegar liðið tapaði fyrir Völsungi á heimavelli í gærkvöldi. Höttur/Huginn vann Sindra á sama tíma á Höfn.

Kifah Mourad, sem alinn er upp í Leikni Fáskrúðsfirði, kom Völsungi yfir á sjöundu mínútu. Húsavíkurliðið bætti við öðru marki eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Marteinn Már Sverrisson minnkaði muninn þegar kortér var eftir. KFA sótti í von um að ná að jafna síðustu mínúturnar en hafði ekki erindi sem erfiði.

Liðið komst í efsta sæti deildarinnar undir lok júlí eftir 15 leiki í röð án ósigurs og hafði fimm stiga forustu fyrir verslunarmannahelgi. Það forskot er nú farið því liðið hefur tapað báðum leikjum sínum eftir verslunarmannahelgina.

Dalvík/Reynir náði í gærkvöldi efsta sætinu, er með 32 stig en KFA 31. Baráttan er hörð á toppnum, Víkingur Ólafsvík rétti við í gær eftir fjóra leiki án sigurs og komst í 30 stig en Þróttur Vogum er með 29 stig. Þessi lið hafa öll leikið 17 leiki. KFG og ÍR hafa aðeins leikið 16 en þau mætast í kvöld. KFG er með 27 stig og ÍR 25.

Þeirra á milli er Höttur/Huginn með 26 stig úr 17 leikjum, sem þýðir að liðið getur með lagni blandað sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar. Liðið hefur verið á góðu skriði og unnið fjóra af síðustu fimm leikjum.

Liði vann í gær Sindra á Höfn 0-2. Víðir Freyr Ívarsson skoraði fyrra markið eftir klukkutíma leik. Bjarki Fannar Helgason fékk sitt seinna gula og þar með rautt á 70. mínútu en varamaðurinn Bjarki Sólon Daníelsson innsiglaði sigurinn á 90. mínútu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.