Þjálfari Hauka: Við erum tilbúnir í úrvalsdeildina

hottur_haukar_22032013_0079_web.jpg
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka sem tryggðu sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla á næsta tímabili með 70-98 sigri á Hetti á Egilsstöðum, segir liðið hafa sýnt styrk sinn með tíu leikja sigurgöngu eftir áramót. Það sé tilbúið í úrvalsdeildina.

„Ég bjóst ekki við þessu þegar ég tók við liðinu í fjórða sæti í desember. Eftir áramót höfum við spilað mjög vel og sýnt að við erum besta liðið í fyrstu deild. Við höfum unnið tíu leiki í röð og þá með að meðaltali með þrjátíu stigum,“ sagði Ívar í samtali við Austurfrétt eftir leikinn í kvöld.

Hann er hvergi banginn fyrir úrvalsdeildina á næstu leiktíð. „Við höfum spilað æfingaleiki við úrvalsdeildarlið og sýnt að við getum haft í fullu tré við þau þótt þau séu með tvo Bandaríkjamenn en við bara einn. Við mættum ÍR í bikarnum og þeir rétt höfðu okkur í lokin – þannig að já – við erum tilbúnir.“

Yfirburðir Hauka gegn Hetti í kvöld benda að minnsta kosti til þess að liðið sé orðið of gott fyrir fyrstu deildina. „Hattarmenn héldu sér inni í leiknum á þriggja stiga skotum. Þeir voru með ótrúlega nýtingu úr þeim í fyrri hálfleik. Annars áttu þeir engin svör við okkar leik. 

Við spiluðum vel og vorum skynsamir. Hópurinn var breiður og allir skiluðu sínu. Hattarmenn voru orðnir þreyttir í lokin og réðu þá ekkert við okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.