Hetti loks spáð áframhaldandi veru í úrvalsdeild

Í fyrsta sinn síðan Höttur komst í úrvalsdeild karla í körfuknattleik er því spáð í árlegri spá fjölmiðla og félaganna að liðið muni halda sæti sínu í deildinni. Keppni í deildinni hefst í kvöld.

Spárnar eru tvær og voru kynntar á kynningarfundi fyrir deildina. Annars vegar er um að ræða spá fjölmiðla, hins vegar spá félaganna þar sem þjálfarar, fyrirliðar og formenn kjósa.

Spárnar eru nokkuð samhljóma þar sem Höttur endar í báðum í tíunda sæti, næsta sæti fyrir ofan fall. Í spá fjölmiðla fær liðið 39 stig af 144 mögulegum. Breiðablik fær 20 og Hamar 12 en Njarðvík er næsta lið fyrir ofan með 65 stig.

Í spá félaganna fær Höttur 115 stig af 396 mögulegum, Hamar 92, Breiðablik 72 en áfram er Njarðvík í fjórða neðsta sæti með 167 stig.

Þegar rýnt er nánar í niðurbrot spánna sést að almennt er því spáð að Höttur, Hamar og Breiðablik berjist um að komast hjá falli. Minni munur er síðan á liðunum þar fyrir ofan. Lítil trú virðist á að þau falli en á móti spá fáir því að þessi þrjú lið eigi möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Höttur leikur nú sitt sjötta tímabil í úrvalsdeild. Liðið spilaði fyrst þar 2005-6, síðan 2015-16, svo 2017-18 og 2020-21. Alltaf féll liðið jafn harðan aftur. Á síðustu leiktíð, 2022-23, tókst liðinu loks að halda sér uppi.

Liðið leikur sinn fyrsta leik, gegn Grindavík á útivelli, fimmtudaginn 5. október. Fyrsti heimaleikurinn er eftir viku.

Spárnar eru báðar samhljóma um að Tindastóll verði Íslandsmeistari og Valur endi í öðru sætinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.