Fótbolti: KFA með fimm stiga forskot inn í fríið í mótinu

Knattspyrnufélag Austfjarða hefur fimm stiga forskot á toppi annarrar deildar karla fyrir tíu daga frí í deildinni eftir sigur í toppslag við Dalvík/Reyni í gærkvöldi. Einherji hefur unnið sig inn í baráttuna í annarri deild kvenna með fimm sigrum í röð.

Það var William Suárez sem skoraði eina markið í leiknum í Fjarðabyggðarhöllinni í gærkvöldi á 40. mínútu. Ekki voru frekari stórtíðindi í leiknum fyrr en á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar leikmaður Dalvíkur/Reynis fékk sitt annað gula spjald og þar með hið rauða.

KFA hefur núna leikið 15 leiki í Íslandsmótinu í röð án taps og er með 31 stig. Fyrir leikinn í gær hafði Dalvík/Reynir unnið sex í röð og svo gert eitt jafntefli. Dalvík/Reynir deilir öðru sætinu með KFG og Víkingi Ólafsvík en liðin hafa öll 26 stig.

Í sömu deild tapaði Höttur/Huginn 3-1 fyrir Haukum á miðvikudag. Hafnfirðingar komust yfir rétt fyrir hálfleik en Valdimar Brimir Hilmarsson jafnaði á 64. mínútu. Heimaliðið var svo komið yfir strax mínútu síðar og bætti svo við einu enn.

Höttur/Huginn er í sjöunda sæti með 20 stig úr 15 leikjum. Tíu daga hlé er nú framundan í Íslandsmótinu en það hefst aftur laugardaginn 12. ágúst með leik Hattar/Hugins gegn KFA á Egilsstöðum.

Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL grátlega fyrir toppliði Víkings í Fjarðabyggðarhöllinni á miðvikudagskvöld. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins á annarri mínútu uppbótartíma. FHL er með 13 stig úr 13 leikjum í 8. sæti.

Einherji hefur verið á mikilli siglingu í annarri deild kvenna og unnið sex leiki í röð. Í vikunni var komið að 1-6 sigri á Sindra á Höfn. Karólína Dröfn Jónsdóttir og Viktoria Szeles skoruðu tvö mörk hvor en þær Paula Lopez og Oddný Karólína Hafsteinsdóttir eitt hvor.

Einherji er með 24 stig úr 14 leikjum og í 8. sæti. Þótt sætistalan sé lág segir það ekki alla söguna því deildin er jöfn. Efsta liðið, ÍR er með 30 stig og hefur leikið 15 leiki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.