Fótbolti: FHL kláruðu Grindavík manni færri

FHL náði í sigur gegn Grindavík í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu um helgina eftir þrjá leiki í röð án sigurs. Einherji vann sinn annan leik í röð í annarri deild en Spyrnir gerði tvö jafntefli í fimmtu deild karla. Þrjú rauð spjöld fóru á loft í þeim þremur leikjum sem austfirsku liðin spiluðu.

Katrín Edda Jónsdóttir kom FHL yfir á 24. mínútu í Fjarðabyggðarhöllinni í gær en Grindavík jafnaði mínútu síðar. FHL komst aftur yfir með sjálfsmarki á 62. mínútu og þremur mínútum síðar bætti Björg Gunnlaugsdóttir við þriðja markinu.

FHL var því komið í vænlega stöðu þegar fyrirliðinn Rósey Björgvinsdóttir fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða á 68. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn þremur mínútum síðar en Björg innsiglaði sigurinn með marki á þriðju mínútu uppbótartíma.

FHL er nú í 7. sæti sæti Lengjudeildar kvenna með 13 stig úr 11 leikjum, eins og Fram en með betra markahlutfall. Sex stig eru niður í fallsætin.

Einherji vann ÍA 1-0 á Vopnafirði á laugardag. Karólína Dröfn Jónsdóttir skoraði markið á 17. mínútu. Í uppbótartíma fékk Coni Ion beint rautt spjald en hún hafði komið inn á tíu mínútum fyrr. Einherji er í 8. sæti 2. deildar með 15 stig.

Spyrnir spilaði tvo leiki í Reykjavík um helgina. Sá fyrri var gegn KM og endaði með markalausu jafntefli. Seinni leikurinn í gær gegn SR var töluvert fjörlegri. SR komst í 3-0 áður en Jónas Pétur Gunnlaugsson minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Eyþór Magnússon lagaði stöðuna í 3-2 á 53. mínútu. Þjálfari heimaliðsins náði síðan þeim áhugaverða árangri að fá tvö gul spjöld á 75. mínútu og þar með brottvísun. Sjö önnur gul spjöld fóru á loft í leiknum. Það var hins vegar Hilmir Hólm Gissurarson sem jafnaði fyrir Spyrni á 89. mínútu og tryggði Egilsstaðaliðinu 3-3 jafntefli og stig á útivelli.

Spyrnir er í 3. – 5. sæti deildarinnar með 19 stig eins og Berserkir/Mídas og KFR en Spyrnir er með besta markahlutfallið. Samherjar eru í öðru sæti með 20 stig.

Leikið er í annarri deild karla á morgun. KF spilar gegn Fjallabyggð á Ólafsfirði en Höttur/Huginn tekur á móti Völsungi.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.