Fimleikar: Hvetja hvor aðra áfram

Tvíburarnir Katrín Anna og Lísbet Eva Halldórsdætur eru meðal þeirra 30 sem valdar hafa verið í úrtökuhóp fyrir íslenska landsliðin sem stefna á Evrópumót í hópfimleikum að ári. Þær segja valið hafa komið gleðilega á óvart en þær hafi ekki átt von á að komast í landslið fullorðinna.

Þetta er í fyrsta sinn sem valið er í landsliðið með þessum hætti en út úr 30 manna úrvalinu verða síðan endanlegir landsliðshópar valdið fyrir mótið. Ekki er ákveðið hvernig þeir verða. Ljóst er að Ísland sendir kvennalið með 12 keppendum en sex bætast væntanlega við ef einnig verður sent blandað lið.

Hópurinn kom saman til æfingar í maí og aftur í ágúst. Hann á að af og til fram að því að æfingar fyrir mótið byrja á fullu. Á milli æfinga geta orðið breytingar á úrvalshópunum, eftir því hvernig fimleikafólkið stendur sig. Mótið sjálft verður haldið næsta sumar.

Óvænt að komast í landslið fullorðinna


Systurnar hafa áður verið valdar í úrvalshópa yngri landsliða en aldrei í lokahóp fyrir mót erlendis. „Þeta er í fyrsta sinn sem við komumst inn í fullorðinsflokkinn. Ég reyndi í fyrra en þá var strax skorið niður í lokahópinn. Þá vorum við líka á yngsta árinu. Við ákváðum að reyna aftur að komast í liðið núna en áttum ekki endilega von á því,“ segir Lísbet.

Valið er kannski sérstaklega ánægjulegt fyrir Katrínu Önnu sem árið 2019 sleit krossband í hné. Það var loks í byrjun árs 2022 sem hún gat aftur farið að stunda fimleikana af alvöru.

„Ég fékk aldrei grænt ljós frá sjúkraþjálfaranum til að byrja að æfa aftur. Það var alltaf vökvi í hnénu. Á þessum tíma mætti ég á allar æfingar til að fylgjast með og gerði þær æfingar sem mér var ráðlagt. Það var erfitt að sjá hinar geta æft en geta það ekki sjálf.

Ég lenti eftir á en þegar ég komst af stað þá gat ég allt sem ég ætlaði mér. Allar æfingarnar voru í vöðvaminninu. Ég hélt aftur af mér í byrjun en þegar ég prófaði þá gat ég tekið stökk sem ég hélt ég gæti aldrei tekið aftur,“ segir hún.

Ef önnur getur gert eitthvað þá fylgir hin fljótlega á eftir


Systurnar hafa fylgst að í fimleikunum hjá Hetti alla tíð og segjast efla hvora aðra með hvatningu fremur en samkeppni.

„Mamma segir að við höfum sleppt því að ganga og farið beint að hlaupa. Við byrjuðum fjögurra ára í fimleikum, höfðum þá verið frá tveggja ára aldri í íþróttaskólanum. Síðan höfum við æft alla vetur auk þess að mæta á sumaræfingar og annað sem hefur verið í boði.

Mamma og pabbi voru dugleg að fara með okkur í fimleikahúsið á Akureyri og síðar suður þegar við urðum eldri. Það munaði miklu um að komast í þá aðstöðu áður en fimleikahúsið var byggt hér,“ segja þær.

„Ég held að það hjálpi að við séum tvær. Ef önnur getur eitthvað þá getur hin það fljótlega líka. Þannig held ég að við togum hvor aðra áfram til skiptis,“ segir Katrín Anna um systrabraginn. „Þetta er ekki samkeppni, frekar hvatning að önnur komist hærra til að hin geti fylgt. Þetta snýst svo mikið um hugsunarháttinn.“

Þær hafa ekki áhyggjur af því þótt bara önnur verði valin í lokahópinn. „Þá fer hin bara og horfir. Það er ekkert verra,“ segir Katrín.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.