Knattspyrna: Einherji endaði tímabilið með fyrsta sigri sumarsins

QM1T7146Í gærkvöldi mættust lið Einherja og Hattar í lokaleik sínum í C-riðli 1. deildar kvenna í sumar. Það var lítið undir hjá liðunum í leiknum, annað en stoltið og ljóst að það lið sem myndi tapa leiknum myndi enda sumarið á botni riðilsins.

Einherji byrjaði betur á Vopnafjarðarvelli í gær, en Linda Björk Stefánsdóttir kom þeim yfir eftir fimmtán mínútna leik. Lið Hattar svaraði þó tíu mínútum síðar, með marki frá Árdísi Ósk Aðalsteinsdóttur.

Karen Ósk Svansdóttir kom Einherjastúlkum aftur yfir fyrir leikhlé og síðan byrjuðu þær appelsínugulu af miklum krafti eftir hlé og komust í 3-1 þegar Thelma Guðný Ragnarsdóttir skoraði á 48. mínútu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð á Vopnafjarðarvelli og Einherjaliðið hefur væntanlega fagnað sigrinum vel, en með sigrinum skutust þær upp fyrir Hött í riðlinum.

Einherji fékk 7 stig í sumar, vann þennan eina leik og gerði fjögur jafntefli. Hattarliðið vann einnig bara einn sigur í sumar, á útivelli gegn Fjarðabyggð, og endaði með fimm stig á botni riðilsins.

„Við settum þennan leik upp eins og úrslitaleik“
„Þetta var virkilega sætur sigur og skemmtilegur sigur og frábært að enda tímabilið með sigri,“ sagði Sigurður Donys Sigurðsson þjálfari Einherja við Austurfrétt í dag. Hann sagði sigurinn hafa verið verskuldaðan.

„Við byrjuðum rosalega stressaðar fyrstu 20 mínúturnar og þorðum varla að halda boltanum. Við settum þennan leik upp eins og úrslitaleik og mér fannst vera smá panik í gangi. Við skoruðum svo gott mark eftir korter og leikur Hattarliðsins brotnaði.

Svo fengum við enn og aftur á okkur mark eftir hornspyrnu, sem við höfum verið að æfa mikið á æfingum og eigum að geta komið í veg fyrir. Stelpurnar gerðu samt vel, bættu í og við skoruðum fljótlega mark eftir mjög vel útfærða aukaspyrnu.“

Sigur liðsins var aldrei í hættu eftir þriðja markið að sögn Sigurðar. „Í hálfleik ákváðum við bara að koma strax og pressa á þær og skoruðum strax. Eftir það þótti mér við mun betri. Hattarliðið fékk aldrei nein dauðafæri í seinni hálfleik og við vorum frekar líklegar til að bæta við.“

Einherjaliðið stefnir á að koma sterkt til baka á næsta ári. „Ég ræddi við stelpurnar inní klefa og sagði þeim að nú myndu þær losna við þjálfarana og fá tækifæri til að stimpla sig aðeins niður og fara í skóla- og vinnurútínu. Við ætlum að vera með á næsta ári og ég á von á því og vona að stelpurnar komi sterkar til baka á næsta tímabili.“

Sigurður sagði að lokum að framkoma Hattarliðsins að leik loknum hefði ekki verið þeim til mikils sóma. Þær hefðu hagað sér óíþróttamannslega og ekki gengið vel um í klefanum á Vopnafirði. „Það er skiljanlegt að þær hafi verið fúlar að tapa, en framkoman var þeim ekki til sóma. Ég óska þeim alls hins besta og vona að þær biðjist afsökunar á þessu,“ sagði Sigurður Donys.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.