Högni Helgason hetja Hattar í sigri á Grundarfirði

fotbolti hottur hamar juli14 0024 webHöttur vann mikilvægan sigur á Grundarfirði í þriðju deild karla í knattspyrnu á Egilsstöðum í kvöld. Liðin berjast um annað sæti deildarinnar sem gefur keppnisrétt í annarri deild næsta sumar.

Hægur fyrri hálfleikur

Leikur Hattar og Grundarfjarðar á Vilhjálmsvelli fór hægt af stað.
Grundfirðingar lágu nokkuð aftarlega og gáfu Hetti hellings tíma með boltann en það var ekki fyrr en eftir tíu mínútur sem eitthvað að ráði gerðist en þá átti Friðrik Ingi Þráinsson ágæta skottilraun sem hafnaði í varnarmanni.

Tveimur mínútum seinna fékk Högni framherji Hattar boltann vinstra megin við teiginn. Hann lék inn á völlinn rétt áður en hann lét bylmingsskot vaða að marki og viti menn boltinn söng í netinu. Markmaður Grundarfjarðar var í honum en náði ekki ekki að koma í veg fyrir að boltinn hafnaði í nærhorninu.

Rétt áður en vallarklukkan sýndi 20 mínúturnar jöfnuðu Grundfirðingar. Löng aukaspyrna þeirra rataði inn í pakka þar sem að Hattarmenn ákváðu af einhverri ástæðu að dekka ekkert. Frír skalli Ragnars Smára Guðmundssonar endaði því í netinu, 1-1.

Þegar að 35 mínútur voru búnar af leiknum átti Brynjar Árnason góða aukaspyrnu rétt utan teigs beint á hausinn á Jóvan Kujundzic en hann náði ekki að stýra boltanum á markið.

Harmonikkuböll eldri borgara í Hlymsdölum á þriðjudagskvöldum bjóða upp á meira tempó og hraða en fyrri hálfleikur. Með öðrum orðum, hann var leiðinlegur. Flæðið var lítið en það sást greinilega að Hattarliðið er betra í fótbolta.

Léleg færanýting kom ekki að sök

Á 53. mínútu gerðist það fyrsta markverða í seinni hálfleik en þá átti Jóvan fínan skalla rétt framhjá eftir horn frá Brynjari.

Fimm mínútum seinna eða á þeirra 58. gekk boltinn loksins í liði Hattar. Leikmenn létu boltann ganga vel sín á milli, Kristófer Kristjánsson átti fína fyrirgjöf á fjær, þar var Garðar Már Grétarsson sem skallaði boltann til Högna sem að afgreiddi boltann ákaflega vel á lofti. Skotið var óverjandi og Höttur komnir með forystu.

Örstuttu eftir markið komst Högni mjög nálægt því að skora þrennu. Elvar Ægisson átti þá frábæra sendingu á Högna sem að flugskallaði boltann rétt framhjá.

Aron Gauti Magnússon leikmaður Hattar mun líklega ekki fá aftur jafn gott færi í sumar og hann fékk á 64. mínútu. Brynjar Árnason kom þá með frábæra stungu á Aron sem var kominn einn í gegn inn í teig nema markmaðurinn varði, boltinn barst þá aftur til Arons sem var einn með opið markið fyrir framan sig nema hvað hann var ekki nógu graður að ýta boltanum yfir línuna og náðu Grundfirðingar á einhvern ótrúlegan hátt að koma boltanum í horn. Svekkjandi fyrir Aron sem hefur staðið sig vel síðan að hann kom frá Fjarðabyggð í sumar.

Þegar um korter var eftir að leiknum var mikill darraðadans í teig Grunfirðinga, Marteinn Gauti Kárason sem var nýlega kominn inná endaði uppúr því í dauðafæri en skot hans hafnaði í samherja. Enn og aftur voru Hattarar klaufar fyrir framan markið.

Það hefði getað kostað þá en varamaðurinn Tomas Weyer komst inn fyrir á 80. mínútu eftir langa sendingu yfir vörn Hattar. Skot hans var þó það lélegt að engin hætta varð úr því.

Bragi Emilsson kom inná hjá Hetti þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum og hressti mikið upp á heimamenn. Bragi, sem hefur verið einhver beittasti leikmaður Hattar í sumar, hefur fengið að verma bekkinn í síðustu leikjum. Spurning hvort það fari ekki að breytast en hraði hans og áræðni er eitthvað sem Höttur getur vel notað.

Þegar að 82. mínútur voru komnar á klukkuna stal Bragi boltanum út á hægri kant, æddi inn í teig og kom með ágæta lága sendingu fyrir markið sem að Marteinn var nærri að tækla yfir línuna.

Síðasta færi leiksins áttu svo heimamenn þegar að títt nefndur Bragi óð inn í teig, gerði vel, renndi boltanum út á Brynjar Árnason sem var í mjög góðu færi en setti hann í lappirnar á markmanninum.

Enn eitt færið en það kom ekki að sök því að stuttu seinna flautaði Páll Valþór Stefánsson dómari leiksins til leiksloka.

Góð úrslit hjá Hetti gegn döprum Grundfirðingum sem mættu einungis með einn varamann til Egilsstaða. Það er ákveðið rugl.

Höttur þarf að nýta færin betur en í þessum leik og keyra upp hraða í uppspilinu. Liðið er þrusufínt en getur betur en þetta, þó úrslitin hafi verið fín.

Undirritaður ætlar að velja Högna Helgason mann leiksins, það þarf ekkert að hafa mörg orð um af hverju.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.