Leiknir sigraði Hött á lokasekúndunum í el clásico þriðju deildarinnar

leiknir kff fotbolti 14092013 0009 webÞað var ágætlega mætt á Búðagrund en veðrið var gott og ekki spillti fyrir að leikur Leiknis og Hattar skaraðist ekki á við undanúrslitaleik Hollands og Argentínu. Sem betur fer fyrir áhorfendur var leikur Leiknis og Hattar meiri skemmtun en viðureign Messi og sköllótta varnarmannsins í Aston Villa.

Fjögur mörk í fyrri

Leikmenn Hattar voru mjög lengi í gang og voru arfaslakir fyrsta hálftímann sem átti það eftir að kosta þá. Fyrsta færi leiksins fengu heimamenn þegar að Arek Grzelak tæklaði boltann yfir úr góðu færi.

Eftir um tíu mínútur af leiktíma skoraði fyrirliði Leiknis, Björgvin Stefán Pétursson mark eftir sendingu frá Borgfirðingnum Baldri Smára Elfarssyni. Hattarmenn voru þá að dútla með boltann fyrir framan teig og töpuðu honum, boltinn barst til Baldurs sem hamraði honum fyrir markið og Björgvin var mættur á fjær til þess að setja hann framhjá Bjarna Viðari Hólmarssyni í marki Hattar.

Eins og áður kom fram þá gekk Hetti lítið að spila boltanum á milli sín og voru Leiknismenn líklegri. Á 35. mínútu skoruðu svo heimamenn upp úr nánast engu. Hilmar Freyr Bjartþórsson fékk þá boltann talsvert út á hægri kanti og lét vaða, Bjarni réði ekki við skotið og staðan því orðin 2-0.

Hattarmenn lentu í því að þurfa skipta tvisvar í fyrri hálfleik vegna meiðsla en þeir Aron Gauti Magnússon og Bjarni Þór Harðarson komu inn fyrir Óttar Guðlaugsson og Friðrik Inga Þráinsson.

Tveimur mínútum eftir mark Hilmars birti þó yfir gestunum þegar að löng aukaspyrna Brynjars Árnasonar sveif yfir Óðinn Ómarsson.

Rétt svo þar á eftir skoraði Högni Helgason með höfðinu þegar að hann fylgdi á eftir skalla Braga Emilssonar sem hafði endað í slánni út. Áhorfendur fengu því þrjú mörk á um fimm mínútum og staðan orðin jöfn.

Fleira gerðist ekki í fyrri hálfleik, mörkin fjögur og hægt að fá sér kaffi í boði Leiknis.

Steindauðar seinni 45, rosalegur uppbótartími

Seinni hálfleikur bauð ekki upp á mörg færi en dramatíkin átti þó eftir að verða mikil.

Brynjar Árnason fékk gott færi eftir sendingu Braga á 66. mínútu en skot hans af stuttu færi þaut yfir markið.

Þá fékk Elvar Ægisson hálffæri sem sömuleiðis fór yfir mark heimamanna.

Þegar að venjulegur leiktími var við það að renna út fögnuðu gestirnir ægilega en sú sæla var skammvinn. Ástæðan var sú að Jovan Kujundzic miðvörður Hattar skallaði boltann í netið eftir laglega sendingu af vinstri kanti.

Héraðsmenn í stúkunni fögnuðu og leikmenn Hattar sömuleiðis, þangað til að mönnum varð ljóst að aðstoðardómari hafði flaggað markið af vegna rangstöðu. Ákvörðun sem féll gestunum ekki í geð en Höttur hafði verið líklegra liðið allan seinni hálfleikinn.

Til þess að fullkomna svekkelsi Hattar þá tók Leiknir sig til og skoraði sigurmarkið með síðustu snertingu leiksins.

Markið gerði Valdimar Ingi Jónsson sem hafði komið inná um tíu mínútum fyrr. Sannkallaður „súper-sub."

Hvort að Hattarmenn voru enn að svekkja sig skal látið ósagt en ljóst er að þeir voru ekki með einbeitinguna í lagi þegar að boltinn fékk að skoppa oftar en einu sinni inn í teig þeirra, þar sem Valdimar mætti og splæsti í einn fallhlífarbolta í fjær.

Sigurinn sendir Leikni í efsta sætið í þriðju deild og eru þeir með þremur stigum meira en Höttur sem er í þriðja sæti.

Erfitt er að velja mann leiksins en leikurinn var ekkert sérstaklega fallegur þrátt fyrir fullt af mörkum. Atkvæði undirritaðs fær þó fyrirliðinn Björgvin Stefán Pétursson Leikni, mest fyrir að vera búinn að leiða liðið með þessum sigri í efsta sæti deildarinnar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.