Kvennalið Þróttar í undanúrslit bikarkeppninnar í blaki

Þróttur HK blak

Kvennalið Þróttar Neskaupstað tryggði sér um helgina sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar í blaki. Karlaliðið þarf aðra tilraun. Höttur vann sannfærandi útisigur á ÍA í fyrstu deild karla í körfuknattleik.

Fyrirkomulagið í bikarkeppninni er þannig að leikið er í tveimur riðlum. Efstu liðin úr hvorum komast í undanúrslit en hin sem eftir sitja fá annað tækifæri í seinni forkeppninni sem fram fer á Norðfirði fyrstu helgina í febrúar.

Kvennalið Þróttar lék í B riðli með Aftureldingu, Þrótti Reykjavík og KA. Liðið vann alla leiki sína þrjá 2-0 og fór áfram með fullt hús stiga. Karlaliðið spilaði í B riðli við HK og Fylki og tapaði fyrir báðum liðunum. 

Höttur vann ÍA á Akranesi í fyrstu deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. 73-89. Höttur náði yfirtökunum strax í leiknum, var yfir 10-28 eftir fyrsta fjórðung og 36-44 í hálfleik.

ÍA byrjaði vel í seinni hálfleik og komst yfir, 45-44. Hattarmenn svöruðu með frábærum seinni hluta þriðja fjórðungs og voru 51-70 yfir að honum loknum. Sú forusta hélst til loka.

Frisco Sandidge var atkvæðamestur Hattarmanna með 27 stig og 12 fráköst. Liðið leikur sinn næsta leik gegn Val á fimmtudagskvöldið klukkan 18:30.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.