Skip to main content

Valþjófsstaðarhurðin geymir margar sögur

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jún 2025 17:54Uppfært 16. jún 2025 17:56

Leyndardómar Valþjófsstaðarhurðarinnar er heiti nýrrar þrautabókar fyrir börn sem kom út í vor á vegum Þjóðminjasafns Íslands og Minjasafns Austurlands. Í henni er meðal annars sagt frá nýjustu rannsóknum og sögum eins helsta dýrgrips íslensku þjóðarinnar.


Hurðin er kennd við Valþjófsstað í Fljótsdal, þar sem hún stóð í kirkjudyrum um aldaraðir. Hún er með útskurði sem meðal annars geymir riddarasögu. Margt er á huldu um sögu og uppruna hurðarinnar, sem hefur verið sérfræðingum stöðugt rannsóknarefni.

„Hún geymir ótal sögur. Við erum ekki bara að tala um riddarasöguna heldur hvaðan timbrið kemur í hana. Á Valþjófsstað eru heimildir um stafkirkju sem stóð í hundruð ára. Hvaðan kom viðurinn í hana? Það er til sögn frá Markúsi frá Rauðasandi sem keypti kirkjuvið í Noregi en kom með laskað skip að Austfjörðum og ánafnaði viðnum í kirkju þar fyrir björgunina.

Í hurðina hefur líka verið rist bandrún í leyfisleysi. Það er sjálfstæð saga, hver merkti hana og hvaða rúnir eru þarna. Síðan er það saga hurðarinnar sem grips. Við vitum að hún var á Valþjófsstað í um 600 ár en er þó eldri en það. Hvar var hún þess utan? Hún fór líka til Kaupmannahafnar og til baka.

Við höfum líka nýjar rannsóknir sem sýna að hún var máluð í skærum litum, dýrri málningu úr innfluttum efnum. Hringurinn með drekasögunni var eins og Andrésblað. Þannig hún er endalaus uppspretta,“ segir Jóhanna Bergmann, safnkennari hjá Þjóðminjasafni Íslands.

Lykilgripur á Þjóðminjasafninu


Bókin sem út í vor er þrautabók með verkefnum fyrir börn. Hugmyndin er fræðsluverkefni sem Minjasafn Austurlands fór af stað með um hurðina árið 2021. Þjóðminjasafnið fékk veður af efninu og vildi fara með það lengra.

Hurðin var send til Danmerkur um miðja 19. öld en var svo á meðal dýrgripa sem Danir færðu íslensku þjóðinni á ný árið 1930 í tengslum við hátíðahöld í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis. Hún er í dag einn af sjö lykilgripum grunnsýningar Þjóðminjasafnsins.

„Sýningunni er skipt upp í sjö tímabil og hurðin er lykilgripur tímabilsins 1200-1400. Hurðin heillar mig því það er hægt að rekja svo marga þræði til að skilja hana og greina. Það er einstakt að hún sé enn til, því hún er úr tré og geymsluskilyrði til þessa hafa verið misjöfn.

Hvaðan kemur hurðin?


Hún var líka geymd, þótt hún væri orðin úreld, og send til Kaupmannahafnar því það var vitað að hún ætti sér sögu. Síðan var henni skilað aftur. Hún hefur því lengi verið á meðal þeirra gripa sem mikilvægir eru í huga okkar,“ segir Jóhanna.

Uppruni hurðarinnar er á meðal leyndardóma hennar en Jóhanna segir að vaxandi stuðningur sé við kenningar dr. Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings, um að hurðin sé komin frá fjölskyldu Jóns Loftssonar í Odda, eins helsta höfðingja Íslands á 12. öld.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.