Sögureitur vígður á Valþjófsstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. ágú 2021 12:30 • Uppfært 16. ágú 2021 12:31
Reitur sem helgaður er sögu Valþjófsstaðar í Fljótsdal og kirkjunnar þar var opnaður formlega með athöfn í gær.
Það er Hjörleifur Guttormsson, fyrrum þingmaður, sem haft hefur frumkvæði að sögusvæðinu. Hann sagði frá því í gær að hugmyndin hefði kviknað þegar hann var fenginn til að taka saman sögu kirkja sem væru orðnar 100 ára eða eldri.
Núverandi kirkja á Valþjófsstað er frá 1966 og því utan þeirrar samantektar. Bæði hún og síðasti prestbústaður eru fjærri þeim bletti sem þau stóðu áður á og gamli kirkjugarðurinn er kominn undir tún.
Hjörleifur hófst handa við að afla styrks til að kanna útlínur gamla kirkjugarðsins árið 2018. Þær sáust vel í jarðsjá og ári síðar samþykktu Fljótsdalshreppur og Kirkjugarðasjóður að koma að gerð sögusviðs. Hjörleifur gerði textann sem er á ensku og íslensku á upplýsingaskiltum á svæðinu.
Þar eru einnig legsteinar úr gamla kirkjugarðinum, sem aflagður var árin 1906 og 7. Er þar meðal annars legsteins Guttorms stúdents frá Arnheiðarstöðum og tveggja eiginkvenna hans. Guttormur átti merka æfi, sat á tíma á Alþingi og var annar fulltrúi Norður-Múlasýslna á þjóðfundinum 1851. Afkomendur hans fluttust til Vesturheims og í einu Íslandsheimsókn barnabarns hans, Guttorms skálds, kom það að legsteini afa síns utan kirkjugarðs. Var hann þá færður í Arnheiðarstaði en er nú kominn aftur í Valþjófsstað.
Það var Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarðaráðs, sem hannaði svæðið. Hann sagði reitinn geta orðið fordæmi að fleiri slíkum því margir aðrir kirkjustaðir hérlendis ættu sér merka sögu sem ekki væri sýnileg. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hve rík saga Valþjófsstaðar væri fyrr en Hjörleifur hefði sýnt honum drög að textanum.
Á Valþjófsstað var prestsetur frá því um 1200 þar til fyrir nokkrum árum, en prestar frá Egilsstöðum þjóna nú kirkjunni. Þorgeir Arason, sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli, sagði nauðsynlegt að halda sögunni á lofti því hún væri minning um fortíðina sem hjálpaði mannfólkinu að skilja hvaðan það kæmi og hvert það stefndi. Hann talaði einnig um tengsl menningu og lista við kirkjuna, meðal annars hefði þar verið fyrsta hljóðfærið í kirkju á Fljótsdalshéraði, orgenharmóníum sem kom 1880.
Helgi Gíslason, sveitarstjóri, rifjaði upp að Valþjófsstaður hefði löngum verið valdasetur Austurlands. Sögur væru um að Njála hefði verið skrifuð þar og að Valþjófsstaðarhurðin væri af fornleifafræðingum talinn einn mesti dýrgripur þjóðarinnar. Sagði hann ábúendur á Valþjófsstað áfram um að gera sögu staðarins enn betri skil og hreppsnefndina tilbúna að koma að því verki. Fundir um næstu skref yrðu í haust.